Með uppáklætt lík í aftursætinu

Hlín Jóhannesdóttir, hægra megin, er margreyndur framleiðandi íslenskra kvikmynda og …
Hlín Jóhannesdóttir, hægra megin, er margreyndur framleiðandi íslenskra kvikmynda og hefur komið að fjölda verkefna á þeim vettvangi. Hlín svalaði forvitni Morgunblaðsins um hvað þessir framleiðendur geri eiginlega, sannarlega fólkið bak við tjöldin. Hér ásamt Ernu Soffíu Einarsdóttur úr framleiðsluteyminu í ægifagurri vestfirskri náttúru við gerð kvikmyndarinnar Á ferð með mömmu. Ljósmynd/Vilborg Einarsdóttir

„Hvað áttu að titla mig? Ja, ég er kvikmyndaframleiðandi, búin að starfa við það svo lengi að ég veit ekki hvað annað ég ætti að kalla mig, er það nóg fyrir þig?“ spyr Hlín Jóhannesdóttir, framleiðandi hjá Pegasus, en Hlín hefur sannarlega marga fjöruna sopið við framleiðslu íslenskra kvikmynda, hún starfaði um árabil hjá framleiðslufyrirtækinu Zik Zak kvikmyndum en rekur auk þess eigið fyrirtæki, Ursus Parvus, og er framleiðandi kvikmyndarinnar Skjálfta þar sem rakin er harmsaga ungrar konu sem glímir við flogaveiki og minnisglöp.

Íslenskt einvalalið við frumsýningu kvikmyndarinnar Svansins á kvikmyndahátíðinni í Toronto …
Íslenskt einvalalið við frumsýningu kvikmyndarinnar Svansins á kvikmyndahátíðinni í Toronto árið 2017. „Það er mjög jákvætt og gott að fá frumsýningu í Toronto sem er ein af aðalhátíðunum í heiminum,“ útskýrir Hlín. F.v.: Ingvar E. Sigurðsson, Guðbjörg Huldís Kristinsdóttir, Ilmur Stefánsdóttir, móðir Grímu Valsdóttur sem fór með stærsta hlutverkið, Hlín Jóhannesdóttir, Sylvía Dögg Halldórsdóttir, Hanna Björk Valsdóttir og Harpa Finnsdóttir. Ljósmynd/Guðbjörg Sigurðardóttir

Morgunblaðinu lék forvitni á hvað þessir framleiðendur geri eiginlega, fólkið sem er nafngreint við upphaf og endi hverrar kvikmyndar en sést þó sjaldnar í fjölmiðlum baðandi sig í kampavíni og sveiflandi gylltum Óskarsstyttum einhvers staðar í útlöndum. Sannarlega fólkið bak við tjöldin en þó yrðu engar kvikmyndir til án framleiðendanna, þessara burðarása iðnaðarins. Meira um það hér síðar í viðtalinu en hver er þessi Hlín eiginlega?

„Æ, ég fer bara í þetta“

„Ég er nú bara fædd í Reykjavík 1973, er lengst af í grunnskóla í Ölduselsskóla í Breiðholti en bjó nú samt tvö ár í Hveragerði þegar pabbi tók við lyfsölu í Ölfusi og var þar 1985 til '87,“ segir Hlín sem er dóttir tveggja ísfirskra lyfjafræðinga, Jóhannesar Finns Skaftasonar heitins og Huldu Bjargar Sigurðardóttur sem auk þess að vera bara lyfjafræðingur er „heimspekisinnaður femínisti og lyfjafræðingur“ ef marka má yfirlýsingar á bloggsíðu hennar.

Á settinu svokallaða við gerð kvikmyndarinnar Skjálfta. Lengst til vinstri …
Á settinu svokallaða við gerð kvikmyndarinnar Skjálfta. Lengst til vinstri situr Tómas Örn Tómasson, frammi á gangi eru Gunnhildur Helgadóttir og Egill Gestsson en við borðið Tinna Hrafnsdóttir, handritshöfundur og leikstjóri, og Aníta Briem sem fer með aðalhlutverkið í myndinni. Ljósmynd/Lilja Jónsdóttir

„Við fluttum svo aftur í gamla húsið okkar í Breiðholti, pabbi tók við Reykjavíkurapóteki og rak það til loka síns starfsferils. Svo fór ég í MH sem var góður tími, kom þar meðal annars að rómaðri uppfærslu Rocky Horror [Picture Show] sem Páll Óskar [Hjálmtýsson] leiddi svo glæsilega,“ heldur Hlín áfram og blaðamann rámar sannarlega í það stórvirki innan um MORFÍS-keppnir og landabrúsa framhaldsskólalífsins um og eftir 1990.

Hlín varð stúdent frá MH og fór svo í mannfræði við Háskóla Íslands. „Ég ætlaði alltaf í sálfræði en svo var bara fullt í sálfræðina þannig að ég fletti bara félagsvísindahlutanum í námskrá HÍ og þegar ég sá mannfræðina hugsaði ég bara með mér „æ, ég fer bara í þetta“ og þetta var alveg frábær tími, frábært fólk sem ég kynntist þarna,“ segir Hlín sem lauk BA-prófi 1997 og nam eftir það hagnýta fjölmiðlun við HÍ, nám sem nú er búið að leysa upp og gera að MA-námi í blaða- og fréttamennsku.

Framleiðandinn á tökustað, grafalvarlegur, bak við tjöldin og bak við …
Framleiðandinn á tökustað, grafalvarlegur, bak við tjöldin og bak við trefilinn. „Þetta er nú bara ein af fáum myndum sem til eru af mér úr Skjálfta,“ segir Hlín glettnislega og leggur þar með enn meiri áherslu á ósýnileika framleiðandans sem þó er eins konar alltumlykjandi afl við gerð hverrar kvikmyndar. Alfa og ómega eins og hún lýsir því. Ljósmynd/Lilja Jónsdóttir

Í djúpu laugina hjá Þóri og Skúla

„Ég fór nú samt ekki strax í hagnýtu, ég fór fyrst að vinna hjá Fróða og var þar í útkeyrslu, keyrði út [bókina] Íslensk fyrirtæki og komst þá að því að fleiri fyrirtæki en Íslendingar eru á Íslandi,“ segir Hlín og hlær dátt við tilhugsunina. „Svo fór ég bara að keyra út Séð og heyrt í sjoppur og eitthvað en öðlaðist svo gríðarlega reynslu í skjalahaldi í starfi hjá Lloyd's Register & Shipping sem er svona skipaskoðunar- og vottunarfélag,“ heldur hún áfram, en nú verðum við eiginlega bara að fara að tala um kvikmyndir, plássið af skornum skammti og tæpar átta mínútur af upptöku eftir af nær endalausum starfsferli Hlínar sem augljóslega er kona með reynslu.

„Já, það hófst þannig að ég sótti um hálfa stöðu á skrifstofu hjá upprennandi kvikmyndafyrirtæki eins og stóð í auglýsingunni,“ rifjar Hlín upp og á við Zik Zak kvikmyndagerð þar sem innsti koppur í búri var enginn annar en Þórir Snær Sigurjónsson Sighvatssonar, skólabróðir þess sem hér skrifar í garðbæsku grunnskólakerfi fyrir löngu og þekktur vandræðagemsi í augum margra kennara þar. Úr Þóri rættist þó heldur betur með tímanum, enda gull af manni. Hinn eigandi Zik Zak var Skúli Fr. Malmquist.

Svanurinn í bígerð, myndin tekin við Kleifarvatn árið 2016. F.v.: …
Svanurinn í bígerð, myndin tekin við Kleifarvatn árið 2016. F.v.: Anneli Ahven meðframleiðandi, Verena Gräfe-Höft meðframleiðandi, Hlín Jóhannesdóttir framleiðandi, Ása Helga Hjörleifsdóttir leikstjóri, Birgitta Björnsdóttir framleiðandi og Guðbjörg Sigurðardóttir meðframleiðandi. Nafn dýrsins fylgdi ekki sögunni. Ljósmynd/Arnar Benjamín Kristjánsson

„Svo reyndist þetta nú bara 150 prósent vinna, maður var kominn beint í djúpu laugina, þarna voru tveir ungir menn sem höfðu komið ár sinni fyrir borð meðal annars með því að gera kvikmyndina Fíaskó með Ragnari Bragasyni. Ég byrjaði bara að raða og flokka og átta mig á hlutunum og svo unnum við saman í rúman áratug,“ segir Hlín af starfinu hjá Zik Zak. „Þórir Snær reyndist mér mjög vel og það er mikill akkur í því fyrir okkur íslenska kvikmyndagerðarmenn að hafa menn eins og hann innanborðs, Þórir er núna yfir Scanbox sem er öflugt og glæsilegt dreifingarfyrirtæki á norrænan mælikvarða og hefur einnig verið að framleiða frábærar myndir,“ heldur hún áfram.

Mjög undarlegur hollenskur náungi

Zik Zak framleiddi meðal annars myndina Nóa albínóa sem margir lesendur minnast ef til vill. „Þetta var mjög erfitt tímabil, óvissuástand og erfitt peningalega og ég man að ég hugsaði með mér að ég ætlaði ekkert að daga uppi hjá einhverju fyrirtæki sem væri að fara á hausinn, nýbúin með háskólanám og svona. Ég komst svo upp í fjöll í Dóminíska lýðveldinu gegnum Pétur Guðjónsson hjá Húmanistahreyfingu Íslands til að láta gott af mér leiða, en kynntist þar líka mjög undarlegum hollenskum náunga sem seldi kaffi, kakó, romm, vindla og kerti í túristabúðir og ég fór að vinna fyrir hann norður í landi þarna í Dóminíska og var þar þangað til í maí 2003.

Vatnaskil verða í lífi Jóns þegar móðir hans deyr en …
Vatnaskil verða í lífi Jóns þegar móðir hans deyr en þau höfðu alið manninn á afskekktu býli vestur á fjörðum. Eins og segir í kynningarefni um myndina: „Þegar móðir Jóns og hans mesti áhrifavaldur fellur frá verða alger umskipti í lífi hans. Með uppáklætt líkið í aftursætinu og hundinn Brésnef við hlið sér tekst hann á hendur ferð þvert yfir landið til að heiðra hennar síðustu ósk. En mamma hefur ekki sagt sitt síðasta.“ Kristbjörg Kjeld og Þröstur Leó Gunnarsson hér í hlutverkum sínum sem mæðginin. Ljósmynd/Liisabet Valdoja

Þá fór ég aftur til Zik Zak og var þar heillengi, hætti þar 2011 eða '12, ég kom að kvikmyndunum Eldfjall og Svartur á leik sem voru gerðar á þessum tíma,“ segir Hlín sem gekk í kjölfarið til samstarfs við Birgittu Björnsdóttur. „Við framleiddum nokkrar myndir saman og er þar líklega þekktust Svanurinn sem kom út 2017. Frá 2013 var ég deildarstjóri við Kvikmyndaskóla Íslands og kennari og hef tengst þeim skóla síðan þá.

En ég ætlaði samt árið 2017 að hætta að vinna í bíó og hóf meistaranám um norðurslóðamál. En það var flókið, kennslan var á Akureyri og auk þess var ég farin að fá fyrirspurnir um að framleiða bíómyndir, átti líka tvö börn og heimili í Reykjavík og komin með hund svo þetta datt bara upp fyrir,“ segir Hlín og hlær glettnislega.

Hlín kveður framleiðslustarfið mjög ávanabindandi. „Það er svakaleg skuldbinding að …
Hlín kveður framleiðslustarfið mjög ávanabindandi. „Það er svakaleg skuldbinding að takast á við verkefni, þetta getur kostað nokkur ár af lífi þínu, jafnvel bara fyrir stuttmynd.“ Ljósmynd/Aðsend

Meira komst einfaldlega ekki fyrir í dagskrá konu sem, er þarna var komið sögu, var auk framangreinds búin að stofna norðurslóðavefinn jonaa.org, eða Journal of the North Atlantic and Arctic, ásamt Vilborgu Einarsdóttur, ritstjóra og framleiðanda, en þær tvær framleiddu samnorræna verkefnið Menningarviðburð Norðurlandanna 2014 fyrir Norræna menningarsjóðinn og eru framleiðendur Dansandi lína, heimildarmyndar sem Friðrik Þór Friðriksson er að leikstýra. Þá hefur Hlín um árabil gegnt formannshlutverki í ÍKSA, Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunni. En hvað gera þá þessir frægu framleiðendur, spurning sem varpað var fram í upphafi viðtals.

Nokkur ár af lífi þínu

„Þeir eru í raun alfa og ómega hverrar myndar í þeim skilningi að gera hana að veruleika, við skulum bara hafa það á hreinu, enda vita það nú flestir sem vinna við þetta,“ segir Hlín og enn hljómar dillandi hlátur hennar. Ekkert verkefni sé án framleiðanda og það sé í raun hann sem færir áfram hugmyndina sem fyrst kviknar með handriti, jafnvel bók. „Við erum kannski með handritshöfund sem er kominn eitthvað áleiðis og okkur líst vel á.

Ford Cortina á vestfirskum vegum. Á ferð með mömmu gerist …
Ford Cortina á vestfirskum vegum. Á ferð með mömmu gerist árið 1980 og er maðurinn á bak við handritið Hilmar Oddsson sem var með það í gerjun um tveggja áratuga skeið og skrifaði sérstaklega með Þröst Leó Gunnarsson í huga sem son hinnar látnu. Ljósmynd/Vilborg Einarsdóttir

En einnig verður að líta til þess að það er svakaleg skuldbinding að takast á við verkefni, þetta getur kostað nokkur ár af lífi þínu, jafnvel bara fyrir stuttmynd. Þetta snýst um að taka hlutina föstum tökum, byrja að fjármagna, gera allar áætlanir um tímalínu, íhuga hvernig við getum gert sem mest úr efniviðnum, engin bíómynd er betri en handritið að henni þótt auðvitað megi ræða það á marga vegu,“ segir Hlín.

Handritið sé það sem öllu máli skipti í hennar heimi og þar ríði á að gera því sem best skil. „Svo þarf að fara í fjármögnun, styrki og annað, og þegar það er komið er fyrst hægt að hugsa um að fara að framleiða fyrir alvöru. Svo þarf að koma öllu dæminu í gang þar til myndin lítur dagsins ljós, þar á milli er til dæmis allt tökutímabilið,“ segir Hlín með slíkum áherslum að blaðamaður kófsvitnar yfir bolla af kólnandi Neskaffi.

Svakalega ávanabindandi

Eru framleiðendur þá alltaf hangandi á staðnum, sitjandi inni í einhverri rútu með kaffi og kex og bíðandi eftir tökum, forvitnast blaðamaður um, minnugur þess er hann lék smáhlutverk í hinum og þessum kvikmyndum íslenskum sem mest snerust um bið og meiri bið, misheppnaðar tökur, blæbrigði í orðavali og stirðlynda leikstjóra.

Hlín segir ekkert verkefni fæðast án framleiðanda, hann færi í …
Hlín segir ekkert verkefni fæðast án framleiðanda, hann færi í raun framvinduna áfram, hugmynd sem byrjar í formi handrits eða bókar, og er þá ótalið hið veigamikla hlutverk framleiðandans við að tengja saman allt það fólk sem kemur að gerð kvikmyndar. Hér frá tökum á Skjálfta sem hóf göngu sína í íslenskum kvikmyndahúsum í vetur. Ljósmynd/Lilja Jónsdóttir

„Já, það þarf alltaf einhver að vera á staðnum fyrir hönd framleiðanda en kannski ekki alltaf sjálfur framleiðandinn. Það fer aðeins eftir því hve stórt „budget“ maður er með hve mikil nærveran er en framleiðslustjóri ber í raun ábyrgð á því að allt gangi smurt kringum alla framvindu og grundvallaratriði að gæta þess að ekki sé farið fram úr kostnaðaráætlun.

Þetta er mikið ábyrgðarstarf en fyrir þá sem finna sig í þessu er þetta líka svakalega ávanabindandi, það er svo margt sem er svo stórkostlegt í þessum pakka sem ég og kollegar mínir sinnum við það að framleiða, þetta er rosalega skapandi vinna, framleiðandinn er svo stórt skapandi „element“ í hverju verki, við vinnum náið með leikstjóranum við það að lenda því hvernig útkoman verður og að stóru leyti á okkar ábyrgð að tengja saman listræna teymið, fagfólkið, sem kemur að kvikmyndaverkinu,“ segir Hlín.

Ekki er hægt að segja annað en að Vestfirðir hafi …
Ekki er hægt að segja annað en að Vestfirðir hafi skartað sínu fegursta í náttúru og veðursæld við gerð kvikmyndarinnar Á ferð með mömmu, að minnsta kosti þegar myndirnar voru teknar. F.v.: Tómas Lemarquis leikari, Óttar Guðnason kvikmyndatökumaður og Hinrik Jónsson aðalgripill á tökustað á Dynjandisheiði. Ljósmynd/Goði Már Guðbjörnsson

„En vissulega er mikið kaffi, kex og langar setur falið í þessu, þannig er nú það,“ bætir hún við. „Þá er lykilmál að stemmning sé góð á setti og að allir finni að störf þeirra séu virt. Biðin snýst um að bregðast við á réttum tíma, þú mátt aldrei missa einbeitingu – sama hver þú ert í teyminu.“

„Íslenska leiðin“

Hlín kveður kvikmyndagerð enda vera teymisvinnu frá a til ö og spurð um allt fagfólkið sem skuli tengja saman ásamt leikstjóra nefnir hún meðal annars kvikmyndatökuna, leikmynd, búningahönnuði, ljós og „grip“, förðun, hljóð, klippara, tónskáld og alla tæknilega eftirvinnslu. „Keðjan er aldrei sterkari en veikasti hlekkurinn, við treystum á alla í þessu ferli og framleiðandinn á að leiða allt þetta fólk áfram. Maður les handrit og maður hugsar með sér „vá, hvað þetta á erindi til einhverra áhorfenda eða er líklegt til að vekja einhver hughrif, snerta við fólki eða breyta lífi þess“, það er þetta sem maður er að gera, þetta er markmiðið,“ segir Hlín.

Hlín segir vinnuna við Á ferð með mömmu hafa verið …
Hlín segir vinnuna við Á ferð með mömmu hafa verið ævintýri líkasta og þar muni fara mynd sem hún verði stolt af þegar ískyggileg einstigi og torfærur vinnslunnar liggja að baki. Ljósmynd/Vilborg Einarsdóttir

Við færum okkur yfir í nýlegt verkefni Hlínar, kvikmyndina Skjálfta sem hún er beðin um að segja örlítið frá. „Það var ofsalega fallegt og gott ferðalag og ég vil nefna sérstaklega Tinnu [Hrafnsdóttur], handritshöfund og leikstjóra myndarinnar. Einhvern veginn gengu hlutirnir alltaf upp hjá okkur og það var bara eitthvert ljós yfir þessari mynd. Við tókum ákvörðun um það í apríl 2018 að fara í þetta verkefni og þá var endalaus vinna fram undan, að klára að vinna í handriti og svo margt fleira,“ segir Hlín.

Þær Tinna hafi fengið styrk frá Kvikmyndamiðstöð Íslands og þá hafi tekið við vinna við að fá erlenda samframleiðendur að gerð myndarinnar. „Við fengum að lokum enga erlenda styrki og stóðum þá frammi fyrir því að fresta gerð myndarinnar eða fara það sem við köllum „íslensku leiðina“, að tala við fyrirtæki og fjárfesta hérna heima og leggja sjálfar launin okkar inn í þetta og gera þetta eins vel og við getum fyrir það fjármagn sem við getum græjað núna,“ segir Hlín frá.

Þröstur Leó Gunnarsson fer með hlutverk Jóns sem tekst á …
Þröstur Leó Gunnarsson fer með hlutverk Jóns sem tekst á hendur erfitt verkefni við andlát móðurinnar. Ljósmynd/Vilborg Einarsdóttir

Þekkir til flogaveiki frá bernsku

Þær Tinna hafi þá svitnað blóði sínu við að koma Skjálfta á koppinn og naumlega náð að klára tökur við upphaf kórónuveirufaraldursins. „Við sluppum fyrir horn, myndin var búin í tökum fyrir Covid,“ segir Hlín. Hún kveður framleiðanda helst ekki eiga að taka að sér verkefni nema hann nái góðu sambandi við efniviðinn og skilji það sem þar er fjallað um. „Ég á systur sem er flogaveik og ég man alveg eftir því úr barnæsku þegar hún var fjólublá í framan og froðufellandi við hliðina á mér,“ segir framleiðandinn um sitt nýjasta afkvæmi á breiðtjaldinu, kvikmyndina Skjálfta.

Hlín á ekki von á öðru en að hún starfi …
Hlín á ekki von á öðru en að hún starfi áfram við gerð kvikmynda það sem hún á eftir starfsævinnar. „Þetta er rosalega skapandi vinna, framleiðandinn er svo stórt skapandi „element“ í hverju verki,“ segir hún. Ljósmynd/Aðsend

Næsta kvikmynd er að hennar sögn á lokametrunum, Á ferð með mömmu, eftir handriti og í leikstjórn Hilmars Oddssonar og fjallar um Jón sem leggur upp í ferðalag með uppáklætt lík móður sinnar í aftursætinu. „Það er búið að vera ævintýralegt verkefni að framleiða og stefnir í kvikmynd sem maður á eftir að verða stoltur af,“ segir Hlín Jóhannesdóttir kvikmyndaframleiðandi að skilnaði og bætir við að líklega muni hún starfa við framleiðslu kvikmynda það sem hún á eftir af starfsævinni, enda, eins og hún segir frá í viðtalinu, sé þar á ferð svakalega ávanabindandi starf. Og þá vitum við loksins hvað þessir framleiðendur gera.

Að ýmsu er að hyggja þegar til stendur að aka …
Að ýmsu er að hyggja þegar til stendur að aka með uppáklætt lík móður sinnar í eldfornri Cortinu um Vestfirði. Bifreiðin hér í græjun við tökur á móður-harðindum Kristbjargar Kjeld og Þrastar Leós Gunnarssonar. Ljósmynd/Vilborg Einarsdóttir
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert