Um 100 manns koma á dag á heilsugæslustöðvarnar á höfuðborgarsvæðinu til að fá bólusetningu gegn Covid-19. Um 200 manns, 80 ára og eldri, hafa þegið aðra örvunarbólusetningu, fjórðu sprautuna á heilsugæslustöðvunum. Slíkar bólusetningar eru nú að hefjast um allt land. Hjúkrunarheimilin bólusetja sitt heimilisfólk með fjórðu sprautunni og er reiknað með að þær bólusetningar hefjist nú í maí.
Flestir sem eru með bælt ónæmiskerfi eða ónæmissjúkdóma hafa þegar verið kallaðir inn til að fá fjórðu sprautuna, að sögn Ragnheiðar Óskar Erlendsdóttur, framkvæmdastjóra hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Fjórir mánuðir þurfa að vera liðnir frá síðustu sprautu áður en fólk fær fjórðu bólusetninguna. Það hefur ekki áhrif þótt fólk hafi nýlega smitast af Covid-19. „Við viljum endilega að viðkomandi fái fjórðu sprautuna þótt hann hafi nýlega fengið Covid,“ segir Ragnheiður.
Töluvert er um að fólk í öðrum aldurshópum komi í bólusetningu. „Það er kominn ferðahugur í fólk og þá áttar það sig á því að það vantar örvunarskammtinn til að komast til annarra landa. Svo kemur alltaf einn og einn sem er óbólusettur. Mér sýnist að það sé vel bókað hjá okkur næstu vikurnar í bólusetningu.“ Hægt er að hringja í heilsugæslustöðvar til að panta tíma eða hafa samband í gegnum netspjall Heilsuveru og bóka bólusetningu.
Um 70 manns koma daglega í PCR-próf í anddyri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins í Álfabakka. Hraðpróf eru aðeins í boði á einkareknum prófunarstöðvum. Það eru aðallega ferðamenn sem koma í PCR-prófin. Þeir eru þá á leið til landa sem krefjast nýlegrar niðurstöðu úr slíku prófi. gudni@mbl.is