Heiður að fá að túlka ávarpið

Þingmenn í sal Alþingis í dag þar sem þeir hlýddu …
Þingmenn í sal Alþingis í dag þar sem þeir hlýddu á ávarp Selenskís. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég lít á það sem heiður að hafa fengið að taka þátt í þessu sögulega tilviki,“ segir Ellen Ingvadóttir, sem túlkaði ávarp Volodimírs Selenskís, forseta Úkraínu, á Alþingi í dag yfir á íslensku.

Þetta var í fyrsta skipti sem er­lend­ur þjóðhöfðingi flutti ávarp í þingsal Alþing­is. 

Fyrirkomulagið var þannig að túlkur í Kænugarði, höfuðborg Úkraínu, túlkaði frá Úkraínu yfir á ensku og þaðan tók Ellen við. „Það kallar á mikla tækni til þess að þetta sé hægt,“ segir hún um ferlið.

Túlkaði í hruninu

Ellen hefur verið löggiltur dómtúlkur og skjalaþýðandi í yfir 20 ár og túlkað bæði hér á landi og erlendis, bæði á ráðstefnum og í dómsölum.

„Starfið er mjög spennandi og gefandi að mörgu leyti, ekki síst fyrir einstakling sem nýtur mannlegra samskipta. Ástæðan fyrir því að ég var að túlka á Alþingi er að ég hef oft unnið fyrir þingið sem þýðandi. Þegar hrunið varð þá túlkaði ég stundum nefndarfundi,“ greinir hún frá.

Þingmenn hlusta á ávarpið.
Þingmenn hlusta á ávarpið. mbl.is/Kristinn Magnússon

Nokkur ár að yfirvinna stressið

Ellen segir vinnu túlksins eðli sínu samkvæmt geta verið mjög stressandi og að það geti tekið nokkur ár að yfirvinna það. Mismunandi tegundir af túlkun eru til. Annars vegar samhliða túlkun, eins og í ávarpinu í dag, og hins vegar lotutúlkun þar sem viðfangsefnið talar í einhvern tíma og síðan tekur túlkurinn við og endurtekur á viðkomandi máli.

Ellen Ingvadóttir að störfum sem löggiltur dómtúlkur og skjalaþýðandi.
Ellen Ingvadóttir að störfum sem löggiltur dómtúlkur og skjalaþýðandi. mbl.is/Ásdís

Keppti á Ólympíuleikunum

Blaðamanni barst til eyrna að Ellen hefði keppt á Ólympíuleikunum í sundi og staðfestir hún það. Þegar hún var 15 ára keppti hún á Ólympíuleikunum í Mexíkó.

„Ég hef í mörg ár verið kynnt sem sundkonan Ellen en frá árinu 2000 hefur bæst við þann titil Víkingakonan,“ segir hún hress. Ástæða þess er að hún var í áhöfn víkingaskipsins Íslendings sem sigldi til vesturheims og var meira að segja eina konan um borð.

Hefur sundið nýst þér í starfi þínu?

„Eitt af því sem sundið kenndi mér, þá mjög ungri því ég var 12 ára þegar ég setti fyrsta Íslandsmetið mitt, er agi og starfið sem ég er í krefst mikils aga,“ svarar hún og nefnir að einbeiting þurfi ávallt að vera til staðar. Oft sé hún örþreytt eftir túlkun, taki hún langan tíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert