„Þetta eru skemmtilegar niðurstöður og skýra margt,“ segir Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands, um fræðigrein Ólafs G. Flóvenz og fleiri sem greint var frá í Morgunblaðinu í gær. Þar kom m.a. fram að líklega hafi háþrýst kvikugas valdið landrisi þrívegis í Svartsengi og einu sinni í Krýsuvík 2020 og það verið fyrirboði eldgossins í Geldingadölum.
Þorvaldur segir gasið sem olli landrisinu 2020 hafa losnað úr kvikunni á 10-14 km dýpi, jafnvel dýpra, sem sýnir að kvikan var þá þegar komin undir Fagradalsfjall.
„Þegar skjálftahrinan fer af stað 2021 opnast efri hluti jarðskorpunnar og kvikan finnur sér leið upp,“ segir Þorvaldur. „Þegar við skoðum hvernig afgösun var í eldgosinu þá var koltvísýringurinn alltaf stöðugur og kom alltaf óháð því hvernig gosið hagaði sér. Brennisteinninn kom hins vegar út í hrinunum. Það er eins og þessi tvö gös hafi ekki komið frá sama stað. Brennisteinninn fylgdi kvikunni en koltvísýringurinn var eins og jafnara bakgrunnsflæði.“
Þorvaldur telur að áætlun um 2-9 km3 af kviku djúpt undir Fagradalsfjalli út frá losun koltvísýrings sé síst ofáætlun. „Mér finnst þetta vera mjög hógvært mat á stærð kvikutanksins. Ég mundi halda að þetta séu lágmarkstölur og að kvika hafi safnast víða undir Reykjanesinu í tanka sem gætu verið af þessari stærðargráðu,“ segir Þorvaldur.
Hann segir að niðurstaða rannsóknarinnar, sem greinin fjallar um, hjálpi mönnum að skilja hvernig kvikan fer þaðan sem hún myndast við hlutbráðnun úr möttlinum, kemur sér fyrir á ákveðnu dýpi og þróast þar til hún finnur sér leið til yfirborðs.
„Ef þetta er rétt þá getur gaspúls sem veldur afmyndun á yfirborði eða óeðlilega mikið útstreymi koltvísýrings verið nokkuð sterkur fyrirboði eldgoss,“ segir Þorvaldur.
Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.