Áhrifavaldurinn og ljósmyndarinn Kyana Sue Powers fékk í dag dvalar- og atvinnuleyfi á Íslandi.
Frá þessu er greint í frétt RÚV um málið.
Senda átti Powers úr landi síðar í mánuðinum eftir að Vinnumálastofnun hafnaði beiðni hennar um atvinnuleyfi hér á landi og kærunefndi útlendingamála staðfesti niðurstöðuna.
Powers kom fyrst til landsins árið 2018, þá sem námsmaður. Hún kolféll fyrir íslenskri náttúru og samfélaginu hér, og var að eigin sögn staðráðin í að flytja hingað einn daginn.
Strax árið 2019 lét hún verða úr því og kom til landsins, þá í von um að geta sótt um atvinnuleyfi og fengið það samþykkt. Powers gerði sér grein fyrir því að það yrði ekki leikur einn að fá slíkt leyfi en hafði þó talið sér trú um að það væri auðveldara ef hún væri staðsett hér á landi.
Vegna mikillar pappírsvinnu sem fylgir því að ráða bandarískan ríkisborgara og fá atvinnuleyfi reyndist hægara sagt en gert fyrir hana að fá vinnu og vildi enginn ráða hana hvert sem hún leitaði. Lauk hún meðal annars jöklaleiðsögumanna námskeiði í von um að vera ráðinn sem slíkur, það gekk ekki eftir.
Til að vera ekki vísað úr landi sótti hún því upprunalega um dvalarleyfi sem námsmaður og sótti um háskólanám í eitt ár.
Stuttu seinna fór hún að byrja að deila frá lífi sínu á samfélagsmiðlum óx fjöldi fylgjenda hennar hratt. Áttaði hún sig fljótlega á því að eftirspurnin var slík að hún gat gert þetta að atvinnu sinni. Fóru íslensk fyrirtæki m.a. að hafa samband við hana og spyrja um ráðleggingar varðandi markaðssetningu á samfélagsmiðlum.
Eftir að hafa stofnað Kraftar Media gat hún ráðið sjálfa sig í vinnu í gegnum fyrirtækið. Sótti hún svo um dvalarleyfi fyrir tíu mánuðum á grundvelli sérfræðiþekkingar sinnar í þessu fagi, enda kveðst hún vera eina manneskjan á Íslandi sem rekur fyrirtæki framleiðir slíkt efni.
Fyrr í mánuðinum hafnaði Útlendingastofnun þó umsókninni um dvalarleyfið. Þótti þekking hennar ekki nógu sérhæfð og gæti hver sem er stundað þessa vinnu. Þá var einnig gerð athugasemd við að Powers hafi ekki hlotið menntun í þessu fagi.
Powers ætlaði þó ekki að gefast upp á þessu strax, útvegaði sér lögmann og áfrýjaði ákvörðun Útlendingastofnunar. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir að einfalda eigi umsóknarferli um dvalar- og atvinnuleyfi fyrir einstaklinga sem krefjast sérfræðiþekkingar.
Lögmaður Powers telur hana falla undir þessa skilgreiningu. Vinnumálastofnun fékk í hendurnar ný gögn sem innihéldu upplýsingar frá fyrirtækjum sem Powers hefur unnið fyrir og breytti úrskurðinum. Powers hefur eflaust verið kampakát þegar hún fékk fréttirnar fyrr í dag.