Kyana Sue verður ekki send úr landi

Kyana Sue Powers, áhrifavaldur, ljósmyndari og Íslandsvinur.
Kyana Sue Powers, áhrifavaldur, ljósmyndari og Íslandsvinur. Ljósmynd/Aðsend

Áhrifavaldurinn og ljósmyndarinn Kyana Sue Powers fékk í dag dvalar- og atvinnuleyfi á Íslandi.

Frá þessu er greint í frétt RÚV um málið.

Kolféll fyrir íslenskri náttúru og samfélagi

Senda átti Powers úr landi síðar í mánuðinum eftir að Vinnumálastofnun hafnaði beiðni hennar um atvinnuleyfi hér á landi og kærunefndi útlendingamála staðfesti niðurstöðuna.

Powers kom fyrst til landsins árið 2018, þá sem námsmaður. Hún kolféll fyrir íslenskri náttúru og samfélaginu hér, og var að eigin sögn staðráðin í að flytja hingað einn daginn.

Strax árið 2019 lét hún verða úr því og kom til lands­ins, þá í von um að geta sótt um at­vinnu­leyfi og fengið það samþykkt. Powers gerði sér grein fyr­ir því að það yrði ekki leik­ur einn að fá slíkt leyfi en hafði þó talið sér trú um að það væri auðveld­ara ef hún væri staðsett hér á landi.

Gekk afar erfiðlega að fá vinnu á Íslandi

Vegna mik­ill­ar papp­írs­vinnu sem fylg­ir því að ráða banda­rísk­an rík­is­borg­ara og fá at­vinnu­leyfi reynd­ist hæg­ara sagt en gert fyr­ir hana að fá vinnu og vildi eng­inn ráða hana hvert sem hún leitaði. Lauk hún meðal ann­ars jökla­leiðsögu­manna nám­skeiði í von um að vera ráðinn sem slík­ur, það gekk ekki eft­ir.

Til að vera ekki vísað úr landi sótti hún því upp­runa­lega um dval­ar­leyfi sem námsmaður og sótti um há­skóla­nám í eitt ár.

Brá á það ráð að stofna sitt eigið fyrirtæki

Stuttu seinna fór hún að byrja að deila frá lífi sínu á sam­fé­lags­miðlum óx fjöldi fylgj­enda henn­ar hratt. Áttaði hún sig fljót­lega á því að eft­ir­spurn­in var slík að hún gat gert þetta að at­vinnu sinni. Fóru ís­lensk fyr­ir­tæki m.a. að hafa sam­band við hana og spyrja um ráðlegg­ing­ar varðandi markaðssetn­ingu á sam­fé­lags­miðlum.

Eft­ir að hafa stofnað Kraft­ar Media gat hún ráðið sjálfa sig í vinnu í gegn­um fyr­ir­tækið. Sótti hún svo um dval­ar­leyfi fyr­ir tíu mánuðum á grund­velli sér­fræðiþekk­ing­ar sinn­ar í þessu fagi, enda kveðst hún vera eina mann­eskj­an á Íslandi sem rek­ur fyr­ir­tæki fram­leiðir slíkt efni.

Breyttu úrskurði eftir að hafa fengið ný gögn

Fyrr í mánuðinum hafnaði Útlend­inga­stofn­un þó um­sókn­inni um dval­ar­leyfið. Þótti þekk­ing henn­ar ekki nógu sér­hæfð og gæti hver sem er stundað þessa vinnu. Þá var einnig gerð at­huga­semd við að Powers hafi ekki hlotið mennt­un í þessu fagi.

Powers ætlaði þó ekki að gefast upp á þessu strax, útvegaði sér lögmann og áfrýjaði ákvörðun Útlendingastofnunar. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir að einfalda eigi umsóknarferli um dvalar- og atvinnuleyfi fyrir einstaklinga sem krefjast sérfræðiþekkingar.

Lögmaður Powers telur hana falla undir þessa skilgreiningu. Vinnumálastofnun fékk í hendurnar ný gögn sem innihéldu upplýsingar frá fyrirtækjum sem Powers hefur unnið fyrir og breytti úrskurðinum. Powers hefur eflaust verið kampakát þegar hún fékk fréttirnar fyrr í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert