Seltjarnarnes: Kosið um útsvarið

Oddvitarnir þrír á Nesinu, Guðmundur Ari Sigurjónsson, Karl Pétur Jónsson …
Oddvitarnir þrír á Nesinu, Guðmundur Ari Sigurjónsson, Karl Pétur Jónsson og Þór Sigurgeirsson.

Valið stendur milli fortíðar, framtíðar og nútíðar, að mati Guðmundar Ara Sigurjónssonar, oddvita Samfylkingarinnar á Seltjarnarnesi. Hann tók þátt í kappræðum Dagmála ásamt Þór Sigurgeirssyni, oddvita Sjálfstæðisflokksins og Karli Pétri Jónssyni, oddvita Framtíðar.

Karl Pétur bar á borð að meirihluti Sjálfstæðisflokksins væri í raun fallinn og vísaði þar til þess að einn bæjarfulltrúa flokksins hefði gengið í lið með minnihlutanum um útsvarshækkun og væri nú á lista Samfylkingar.

Þór svaraði því til að Seltjarnarnes ætti áfram að bjóða lágt útsvar, góðan rekstur og góða þjónustu. Það væri fyrirheit sjálfstæðismanna í kosningabaráttunni.

Kosið um útsvarshlutfall

Ólíkar hugmyndir um útsvarshlutfall er það sem einkennir ólíkar nálganir flokkanna þriggja sem bjóða fram lista fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar. „Við treystum okkur fyllilega til að halda útsvarinu í 13,7%,“ sagði Þór. Karl Pétur vill hins vegar að útsvar taki mið af útgjöldum bæjarins. „Við fengum það í gegn að hækka útsvarið upp í 13,9% um áramótin og það voru engar mótmælagöngur, fólk vill borga fyrir þjónustuna,“ sagði hann og kvaðst vilja hækka útsvarsprósentuna í 14,47%. Guðmundur Ari telur Seltjarnarnes eiga að hækka útsvarið upp í 14,48%, annað sé kredda, en með þessu væri hægt að stórbæta þjónustuna sem sé ekki vanþörf á og vísar hann til þjónustukönnunar Gallup.

Lausnir fyrir leikskólann

Fyrir síðasta kjörtímabil var talað um að bæta aðstöðuna á leikskólanum, sem hefur starfað að hluta til í færanlegum rýmum vegna húsnæðisvanda. Fallið var frá fyrirliggjandi áformum sem reyndust allt of dýr en Þór segir að fyrir næsta kjörtímabil sé leikskólinn algert forgangsmál hjá Sjálfstæðisflokknum. Búið sé að finna lausn sem kosti 1,2 milljarða og sé þannig hófstilltari en muni leysa vandann.

Karl Pétur vill líta til annarra lausna, reisa ætti nýjan leikskóla í miðri þéttri og lágreistri byggð.

Takmarkaðir stækkunarmöguleikar Seltjarnarness

Þór bindur miklar vonir við Gróttubyggð. Með uppbyggingu þar sé verið að svara þörf á fjölbreyttri byggð, auk þess sem þar birtist tekjumöguleikar fyrir sveitarfélagið til þess að rétta af þann halla sem skapast hefur í fjármálunum, án þess að hækka útsvar. Hann áttar sig þó á að möguleikar Seltjarnarness til uppbyggingar og útþenslu séu takmarkaðir.

Guðmundur Ari bendir á að það þyrfti að skapa umhverfi þar sem rekstraraðilar sjái hag sinn í því að starfa og bjóða upp á þjónustu. „Það vantar rými sem býður fólki inn af götunni.“

Þeir Karl Pétur taka undir að hefja þurfi á ný að athuga þéttingu byggðar meðfram strandlengjunni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert