„Snýst um hverjum íbúar treysta“

Víða var farið í umræðum oddvitanna fimm, sem snerust mikið …
Víða var farið í umræðum oddvitanna fimm, sem snerust mikið um stjórn meirihluta sjálfstæðismanna. mbl.is/Ágúst Óliver

Ekki kemur á óvart að minnihlutaflokkarnir í Garðabæ telji að nýjan meirihluta þurfi í bæjarstjórn, þar sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið einn í meirihluta frá upphafi vega. „Það getur ekki verið hollt að tala bara við sjálfa sig í meira en 50 ár,“ segir Sara Dögg Svanhildardóttir í oddvitaumræðu Dagmála, sem birt er í dag.

Almar Guðmundsson, oddviti sjálfstæðismanna og bæjarstjóraefni, segir þvert á móti gott fyrir kjósendur að vita að hverju þeir gangi, bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins séu samhentur hópur.

„Um þetta snýst kosningabaráttan. Hverjum treysta íbúarnir til þess að leiða bæinn áfram, þannig að fjármálin virki, þannig að þjónustan sé í lagi, þannig að uppbygging sé þar sem fólk vill hafa hana. Þar veit fólk að hverju það gengur þegar sjálfstæðismenn eru annars vegar.“

Því fari þó fjarri að þeir ræði aðeins sín á milli, í bæjarstjórn séu fjörlegar umræður og dæmi um að meirihlutinn og flokkar í minnihlutanum leggi fram tillögur saman.

Leikskólakreppa í Urriðaholti

Urriðaholtið var talsvert til umræðu en oddvitar stjórnarandstöðuflokkanna telja að þar hafa innviðir ekki fylgt þéttingu byggðar og verulegur skortur sé á leikskólaplássum, en íbúamynstrið reyndist annað en upphaflega var gert ráð fyrir.

Almar benti á að nú þegar hafi 3 milljörðum króna verið varið í uppbyggingu í Urriðaholti og það kæmu til með að verða 5 milljarðar á næsta ári. Í Urriðaholti eru 17% íbúa fjölskyldur með börn á leikskólaaldri. Þorbjörg Þorvaldsdóttir, oddviti Garðabæjarlistans, telur að sú þörf hafi verið ljós fyrir tveimur árum, en að ekki hafi verið brugðist nógu hratt við þeirri þróun. Sara telur þjónustu hafa goldið áherslu á fjárfreka uppbyggingu íþróttamannvirkisins Miðgarðs, leikskólinn í Urriðaholti væri risinn ef ekki væri fyrir Miðgarð. Almar tekur fyrir það að Miðgarður hafi bitnað á þjónustu og segir Söru ekki benda á nein fjárhagsleg rök sem styðji þá fullyrðingu. Hann telur að fjármunum hafi verið vel varið í Miðgarð, sem sé bænum mikil lyftistöng.

Vilja ekki einsleitt samfélag

Sara Dögg kveðst hafa áhyggjur af samfélagslegri ábyrgð sveitarfélagsins, en beiðnum um fjárhagsaðstoð hafi fjölgað. „Þótt við séum hægrisinnuð þá viljum við félagslega velsæld.“ Hún nefnir að í Garðabæ séu aðeins 28 félagslegar íbúðir í 18 þúsund manna samfélag. „Við viljum ekki að Garðabær einangrist sem einsleitt samfélag.“

Almar segir að sú tala segi ekki alla sögu, því bærinn leigi einnig íbúðir í félagslegum tilgangi. Í Garðabæ séu vissulega biðlistar eftir félagslegu húsnæði, en þeir séu þó enn lengri í öðrum sveitarfélögum.

Brynja Dan Gunnarsdóttir, oddviti Framsóknar, tók undir þetta og lagði áherslu á að fjárfesta þyrfti í fólki, létta undir með fjölskyldum og skapa barnvænna samfélag. „Við höfum stækkað hratt en hljóð fylgir ekki mynd.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert