Sterk upplifun sem erfitt verður að gleyma

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðhera og Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir utanríkisráðherra hlusta …
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðhera og Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir utanríkisráðherra hlusta á ávarpið. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þegar ég áttaði mig á því að ég væri að horfa á hann þá hvarf ég svolítið inn í það. Mér leið eins og að við værum nánast í sama herbergi,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra þegar hún lýsir upplifun sinni fyrr í dag þegar hún ávarpaði forseta Úkraínu í gegnum fjarfundabúnað í þingsal.

Hún segir þetta hafa verið áhrifaríka stund, ekki síður í ljósi þess að úkraínski forsetinn rifjaði upp sameiginlegu sögu þjóðanna.

„Þetta var mjög sterk upplifun sem við eigum öll eftir að muna eftir. Þetta eru líka einstakir tímar og þessi atburður auðvitað einstakur vegna þessara einstöku tíma.“

Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands hlustaði á ávarpið í þingsal …
Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands hlustaði á ávarpið í þingsal í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ekki búin að sjá fyrir endann á þessu

Volodimír Selenskí ávarpaði í dag Alþingi og íslensku þjóðina í gegnum fjarfundarbúnað. Að því loknu steig Katrín í pontu og hélt þar stutta ræðu. Þar sagði hún Ísland standa þétt við bakið á Úkraínumönnum og að íslenska ríkið ætlaði að tvöfalda fjárframlag til Úkraínu.

Í samtali við mbl.is segir hún að frekari stuðningur við Úkraínu eigi eftir að koma í ljós síðar en að þetta sé sífellt í skoðun.

„Eftir því sem að þetta heldur áfram þá auðvitað eykst þörfin. Við sjáum eyðilegginguna í Úkraínu sem kallar á aukinn stuðning við efnahagslega uppbyggingu,“ sagði forsætisráðherrann.

„Ég held við séum ekki að sjá fyrir endann á þessu.“

Ísland reiðubúið að aðstoða

Í ræðu sinni minntist Katrín einnig á kynferðisofbeldi á stríðstímum og hvernig stríðið bitnar ólíkt á kynjunum. Sagði hún Ísland vera reiðubúið að veita hjálparhönd í þeim málum. 

„Ég vildi nú bara nefna það því við erum þjóð sem að stendur framarlega í þessum málum og höfum tekið að okkur að vera í forystu á alþjóðavettvangi þegar kemur að kynferðisofbeldi. Það er full ástæða til þess að flagga því. Við erum aðilar að þessari tillögu sem vill rannsaka stríðsglæpi.

En líka þegar kemur að ofbeldi gegn konum í stríði þá þarf að tryggja það að það sé horft sérstaklega á það þegar að við erum að rannsaka þessa hluti því það er auðvitað vel þekkt að það verður stundum út undan.“

Kom ekki á óvart

Í ávarpinu kom Selenskí einnig inn á orkumál og sérstöðu Íslendinga í þeim efnum. Katrín segir það ekki hafa komið á óvart.

„Þau eru að byggja von fyrir sitt fólk, hvernig þau geta byggt landið upp aftur, og hluti af því er einmitt þetta – getum við átt samstarf með ykkur í þessum málum. Sem auðvitað er fullur vilji til af okkar hálfu.“

Síðasta úrræði

Úkraínumenn fjölmenntu Austurvöll á meðan ávarpinu stóð en það var spilað á úkraínsku í hátölurum sem búið var að koma upp fyrir utan þinghúsið. Að dagskrá lokinni fór Katrín út og gaf sig á tal við fólkið.

Hluti af þeim spurningum sem hún fékk var hvers vegna væri ekki búið að vísa rússneska sendiherranum úr landi. 

Í samtali við mbl.is segir hún það ávallt vera síðasta úrræði að slíta stjórnmálasambandi með því að senda sendiherra heim.

„Ef við myndum senda einhvern heim héðan þá myndi það í í raun og veru hafa þau áhrif á okkar sendiráð í Moskvu – af því að það er svo lítið – að það væri nánast bara lokun. Við lítum svo á að það sé mikilvægt að halda þessum línum opnum, þrátt fyrir stöðuna. En ég skil alveg að þau spyrji.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert