Sýknudómi Zuista-bræðra áfrýjað

Finnur Þór Vilhjálmsson, saksóknari hjá embætti héraðssaksóknara.
Finnur Þór Vilhjálmsson, saksóknari hjá embætti héraðssaksóknara. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ríkissaksóknari hefur áfrýjað sýknudómi yfir bræðrunum Ágústi Arnari og Einari Ágústssonum sem reka trúfélagið Zuism til Landsréttar. Bræðurnir voru sýknaðir af ákæru um fjársvik og peningaþvætti í Héraðsdómi Reykjavíkur í apríl síðastliðnum.

Þetta staðfestir Finnur Þór Vilhjálmsson, saksóknari hjá embætti héraðssaksóknara, í samtali við mbl.is.

Dómurinn ekki verið birtur opinberlega ennþá

Spurður segist Finnur ekki vilja tjá sig efnislega um niðurstöðu héraðsdóms. Athygli vekur að þrátt fyrir að tæpur mánuður sé síðan dómurinn var kveðinn upp hefur hann ekki verið birtur opinberlega á vef dómstólsins ennþá. Vísir greindi fyrst frá.

Bræðurnir tveir voru ákærðir fyrir að látast reka trúfélag sem uppfyllti skilyrði laga um slík félög og svíkja þannig ríflega 85 milljónir króna út úr ríkinu í formi sóknargjalda. Sömuleiðis voru þeir ákærðir fyrir peningaþvætti á fjármununum.

Í málinu var sjálft trúfélagið Zuism, einkahlutafélagið EAF sem Einar er í forsvari fyrir og bandaríska skúffufélagið Threescore LLC í Delaware einnig ákært. Millifærðu bræðurnir m.a. stóran hluta fjármuna Zuism á félagið EAF sem þeir létu Zuism síðar kaupa af öðru félagi Einars.

Sýknudómurinn þýðir að hvorki bræðurnir né félög þeirra þurfa að sæta upptöku á eignum upp á tugmilljónir króna.

Bræðurnir Ágúst Arnar Ágústsson og Einar Ágústsson.
Bræðurnir Ágúst Arnar Ágústsson og Einar Ágústsson. Samsett mynd

Eyddu sóknargjöldum í persónulega neyslu

Ákæruvaldið taldi að Ágúst Arnar hafi fjármagnað persónulega neyslu sína með sóknargjöldum sem Zuism fékk frá ríkinu. Í ákæru kom fram að bræðurnir hafi m.a. eytt milljónum króna af sóknargjöldunum í mat, áfengi og ferðalög.

Við aðalmeðferð málsins gat Ágúst litlu svarað um ráðstöfun fjármunanna. Hins vegar hélt Einar bróðir hans því fram að hann væri trúaður á kennisetningar fornsnúmera og að hann sæi fyrir sér að reka trúfélagið áfram í framtíðinni, fengi það leyfi til þess.

Frá því í byrjun árs 2019 hefur sýslumaðurinn á Norðurlandi eystra, sem hefur eftirlit með starfsemi trú- og lífsskoðunarfélaga, haldið eftir sóknargjöldum Zuism. Vísar embætti til töluverðs vafa um það hvort félagið haldi úti einhverri raunverulegri starfsemi og hvort það uppfylli skilyrði laga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert