Uppbygging OR í Elliðaárdal jákvæð og eðlileg

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur,
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, mbl.is/Kristinn Magnússon

Uppbyggingin orkusýningar og aðstöðu til útivistar við gömlu Elliðaárstöðina er fagnaðarefni, að sögn Dags B. Eggertssonar borgarstjóra. Kallað hafi verið eftir kaffihúsi og almenningssalerni á svæðinu, sem sé hið besta mál.

Þetta kemur fram í skriflegu svari Dags við fyrirspurn mbl.is um viðbrögð hans við fyrirhuguðum fjölskyldu- og skemmtigarði Orkuveitu Reykjavíkur (OR) ásamt kaffihúsi við Elliðaárstöð og hvort það sé hlutverk OR að standa fyrir slíku.

„Góð samstaða hefur verið um verkefnið í stjórn Orkuveitunnar þar sem bæði fráfarandi og nýr oddviti Sjálfstæðisflokksins hafa átt sæti og Hildur Björnsdóttir [nýr oddviti] var raunar í dómnefndinni sem valdi þessa útfærslu. Orkuveitan hefur virkjað ána og nýtt dalinn í heila öld og það er bæði jákvætt og eðlilegt að hún gangi vel frá og geri dalnum til góða þegar raforkuframleiðsla er að hætta,“ segir Dagur.

Ekki tekist að finna leiðir

Raddir hafa verið uppi um að OR endurskoði ákvörðun um að hætta rekstri Elliðaárstöðvar, bæði vegna raforkuskorts og ógnunar á orkuöryggi. Spurður hvort það komi til greina að setja virkjunina aftur í gang segir Dagur borgina ítrekað hafa látið meta undanfarin ár hvort raunhæft sé að halda raforkuframleiðslunni áfram.

Frá Elliðaárstíflu í Elliðaárdal.
Frá Elliðaárstíflu í Elliðaárdal. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Hugmyndin að því kom frá Andra Snæ Magnasyni rithöfundi og uppeldisfélaga mínum úr Árbænum. Hans hugmynd var sú að tekjur af áframhaldandi virkjun árinnar myndi standa undir umhirðu og rekstri dalsins til framtíðar. Elliðaárdalurinn yrði þannig sjálfbær í öllum skilningi. Þrátt fyrir góðan vilja hefur ekki tekist að finna leiðir til að nauðsynlegar framkvæmdir standi undir sér, hvað þá að eitthvað verði afgangs sem myndi nýtast dalnum góða. Raforkuframleiðslu hefur því verið hætt,“ svarar Dagur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert