Vegir slæmir og jafnvel hættulegir

Í ályktun bæjarstjórnar Grundarfjarðarbæjar sem send hefur verið til innviðaráðherra …
Í ályktun bæjarstjórnar Grundarfjarðarbæjar sem send hefur verið til innviðaráðherra og fjárlaganefndar Alþingis er lýst þungum áhyggjum af lélegu og síversnandi ástandi þjóðvega á Snæfellsnesi og um Mýrar og sagt að það stafi að stórum hluta af litlu viðhaldi.

Ástand þjóðvega á Snæfellsnesi og allt suður á Mýrar er slæmt og talið hættulegt á köflum, að því er fram kemur í áskorun bæjarstjórnar Grundarfjarðarbæjar til innviðaráðherra og Alþingis um að auka viðhald. Vegagerðin áætlar að þörf sé á 5-6 milljarða króna fjármagni í allra brýnustu verkefnin við styrkingar vega og endurbóta, á Vesturlandi og Vestfjörðum, en veittar eru 370 milljónir króna í ár til slíkra verkefna.

Í ályktun bæjarstjórnar sem send hefur verið til innviðaráðherra og fjárlaganefndar Alþingis er lýst þungum áhyggjum af lélegu og síversnandi ástandi þjóðvega á Snæfellsnesi og um Mýrar og sagt að það stafi að stórum hluta af litlu viðhaldi.

Skelfilegt ástand á köflum

Skorað er á ráðherra og fjárlaganefnd að tryggja fjármagn til þessara verkefna.

„Það er skuggalegt að sjá að við erum að missa stofnvegi í hrikalegt ástand af því að við höldum þeim ekki við. Allir fagna því að sett er fjármagn í samgöngubætur, svo sem brýr og breikkun vega, en á sama tíma töpum við þeim mikilvægu stofnleiðum sem fyrir eru í óviðunandi ástand vegna skorts á viðhaldi,“ segir Björg Ágústsdóttir, bæjarstjóri í Grundarfirði.

Hún hefur rætt málið við vörubílstjóra og segir að ástandið sé verst á sunnanverðu Snæfellsnesi, ekki síst frá Vegamótum að Hítará. Það sé skelfilegt á köflum, brotnir vegkantar, sig og frostskemmdir sem valda ójöfnum. Hún nefnir sérstaklega kaflana um Kaldármela og Skjálgarhraun. Hefur Björg eftir vöruflutningabílstjóra að það sé ekki spurning um hvort heldur hvenær alvarlegt slys verður á þessum vegarköflum.

Miklir fiskflutningar eru til og frá Snæfellsnesi og hluti af þeirri miklu framleiðslu á eldislaxi sem kemur frá sunnanverðum Vestfjörðum er fluttur með Baldri yfir Breiðafjörð og fer þá um Snæfellsnesveg og Mýrar. Þegar fulllestaðir bílar geta ekki nýtt kantinn verða þeir að færa sig aðeins inn á hina akreinina, sem ætluð er umferðinni á móti. Þetta veldur augljóslega hættu.

Von er á miklum fjölda ferðamanna til landsins í sumar og munu margir leggja leið sína um Snæfellsnes, miðað við reynsluna frá því fyrir faraldur. Björg segir að vegirnir séu ekki í standi fyrir stóra bíla, eins og rútur með ferðafólki. Þá sé ökuhæfni sumra þeirra erlendu ferðamanna sem fara um landið á eigin vegum, til dæmis bílaleigubílum, misjöfn og slæmir vegir hjálpi þeim augljóslega ekki.

Nánar er fjalllað um málið í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert