Vilja heyra frá fleiri foreldrum og kennurum

Flensborgarskóli í Hafnarfirði
Flensborgarskóli í Hafnarfirði mbl.is/Eggert Jóhannesson

Foreldrar nemenda í leikfélagi Flensborgarskóla munu ekki sitja hjá aðgerðalausir vegna óánægju með nýjan skólameistara og vilja þeir funda ásamt fleiri foreldrum nemenda skólans. Þá vilja þeir einnig heyra í þeim kennurum sem talið er að séu ósáttir.

Mbl.is greindi frá því fyrr í dag að fundur foreldra nemenda sem skipa leikfélag skólans, væri í gangi. Tilefni hans var óánægja með skipun nýs skólameistara.

Fundinum er nú lokið en ríflega 20 foreldrar voru viðstaddir auk nokkurra sem tóku þátt í gegnum fjarfundabúnað. Var mætingin talin nokkuð góð en álíka margir voru á fundinum og skipa leikfélagið.

Þá sat fulltrúi skólanefndar Flensborgarskólans m.a. fundinn ásamt nokkrum nemendum sem lýstu upplifun sinni af skólameistaranum fyrir fundargestum.

Skipulögðu hópskróp

Á miðvikudag var Erla Sigríður Ragnarsdóttir skipuð í embætti skólameistara Flensborgarskólans, við litla hrifningu hluta nemenda, en hún hefur starfað sem settur skólameistari frá því árið 2020.

Í yfirlýsingu nemendafélags skólans sem send var á menntamálaráðuneytið sama dag, segir m.a. að nemendur upplifi vanlíðan vegna hennar í skólanum.

Til að mótmæla skipun Erlu Sigríðar skipulögðu nemendur Flensborgar hópskróp í dag. 

Fjöldi lýst yfir óánægjulegri reynslu

Frá því að umfjöllun málið hófst hefur fjöldi nemenda skólans sett sig í samband við mbl.is og sagt frá reynslu sinni af skólameistaranum.

Hafa margir lýst yfir mikilli óánægju vegna aðgerðarleysis hennar gagnvart grófum ofbeldis- og eineltismálum sem nemendur segja þrífast innan veggja skólans. Telja nemendur sig ekki geta leitað til hennar og upplifa margir sig ekki örugga í Flensborg.

Segja þeir skólameistara taka afstöðu með gerendum en í stað þess að tekið sé almennilega á alvarlegum málum sem komið hafa upp, þá hefur þolendum m.a. verið boðið að fara í fría sálfræðitíma. 

Ekki hefur náðst í Erlu Sigríði frá því að fréttir af óánægju nemenda fóru fyrst í loftið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka