Vilja styrkja rannsóknir á handritum

HANDRITIN
HANDRITIN Sverrir Vilhelmsson

Ríkisstjórnir Íslands og Danmerkur eiga að gera grein fyrir skuldbindingum milli landanna í nýrri bókun við handritasáttmálann. Tvíhliða starfshópur Íslands og Danmerkur um forn íslensk handrit leggur til átak milli landanna, stafræna endurgerð og að styrkja rannsóknir og ungt fræðafólk. Einnig verði fastasýning handritana í Húsi íslenskunar.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, upplýsti ríkisstjórn um vinnu starfshópsins á ríkisstjórnarfundi fyrr í dag, en þetta kom fram á vef stjórnarráðsins.

„Ég er mjög ánægð með gang vinnunnar og legg mikla áherslu á að breytingar verði gerðar á handritasáttmálanum. Eins og ég hef áður sagt þá viljum við fá fleiri handrit lánuð til lengri tíma og við viljum vinna þetta með dönskum stjórnvöldum,“ er haft eftir ráðherra.

Leysa þarf alþjóðlegar deilur um menningarverðmæti

Tvíhliða starfshópur Íslands og Danmerkur um forn íslensk handrit leggur til sameiginlegt átak verði milli landanna um að styrkja rannsóknir, stafræna endurgerð og miðlun á fornum íslenskum handritum með áherslu á að styrkja ungt fræðafólk. Haldnar verði ráðstefnur um íslenskan handritaarf og lausn alþjóðlegra deilna um menningarverðmæti, meðal annars undir formerkjum UNESCO.

Starfshópurinn mun ljúka störfum á næstu misserum, en tillögur sem ræddar hafa verið á þeim vettvangi snúa meðal annars að fastasýningu handrita í Húsi íslenskunnar. Vegna sýningarinnar hefur Ísland óskað eftir langtímaláni á níu handritum.

Loks leggur starfshópurinn til að ríkisstjórnir Íslands og Danmerkur geri nýja bókun við handritasáttmálann um tillögur þær sem hér koma fram og þar sem gerð er grein fyrir skuldbindingum landanna tveggja vegna skráningar handritasafns Árna Magnússonar á lista UNESCO yfir Minni heimsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert