Afkoma stéttarfélagsins Eflingar var mun betri á seinasta ári en á árinu á undan og var jákvæð um 543 milljónir króna samanborið við 48 milljóna króna tap á árinu á undan. Þetta kemur fram í ársskýrslu Eflingar sem lögð var fram á dögunum.
„Iðgjaldatekjur ársins námu 2,4 milljörðum króna og jukust um 12,9% en þær drógust saman um 6,7% milli 2019 og 2020. Rekstrargjöld lækkuðu milli ára um 435 milljónir eða um 15,2% en útgreiðslur úr Vinnudeilusjóði námu 461 milljón króna árið á undan og að teknu tilliti til þeirra hækka rekstrargjöld um 26,7 milljónir eða um 1,1%,“ segir í umfjöllun um rekstur og afkomu stéttarfélagsins. Hrein eign félagsins í árslok 2021 var rúmlega 13,5 milljarðar króna og hækkaði um 547 milljónir á milli ára. „Eiginfjárstaða Eflingar er sterk, eignir félagsins eru að mestu leyti bundnar í traustum skuldabréfum, bundnum bankainnstæðum, orlofshúsum, fasteignum og lóðum. Heildareignir félagsins eru tæpir 14 milljarðar króna. Skuldir nema 411 milljónum króna og er eigið fé félagsins því 13,5 milljarðar króna í árslok 2021.“
Eigið fé Vinnudeilusjóðs Eflingarfélaga nam tæpum þremur milljörðum króna í árslok 2021 og hækkaði um 7,4% á árinu. Alls voru greiðandi félagsmenn á seinasta ári 37.979 eða 851 fleiri en árið áður. Þar af voru 20.910 karlar og 17.069 konur en bent er á að þar sem sumir greiða einungis hluta úr ári reiknast meðalfjöldi þeirra á árinu 26.058.
Í skýrslunni kemur einnig fram að í fyrra fengu 929 félagsmenn greidda sjúkradagpeninga og nam heildarupphæð þeirra 787 milljónum króna. Lækkuðu greiðslur vegna sjúkradagpeninga um 4,5% á milli ára. Greiddir voru 9.163 styrkir úr sjúkrasjóði Eflingar í fyrra til 5.475 félagsmanna, alls tæplega 184 milljónir króna, og hækkuðu greiðslur um rúm 17% á milli ára.
Styrkir vegna líkamsræktar voru algengastir en þar á eftir eru styrkir vegna viðtalsmeðferða sem jukust um 28%.