Stjórn Flensborgarskólans í Hafnarfirði fylgir aðgerðaáætlun um ofbeldismál og mikil áhersla er lögð á fagleg vinnubrögð. Í slíkum tilvikum eru mál unnin í samvinnu við fagfólk bæði innan og utan skólans.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Erlu Sigríði Ragnarsdóttur skólameistara.
Fram kemur að ályktun sem fjölmiðlar hafi fjallað um að undanförnu varðandi málefni nemenda hafi hvorki borist skólameistara né stjórn skólans og því sé erfitt að bregðast við henni.
„Skólameistara er óheimilt að tjá sig um viðkvæm mál einstakra nemenda. Stjórn skólans fylgir aðgerðaáætlun um ofbeldismál og mikil áhersla er lögð á fagleg vinnubrögð. Í slíkum tilvikum eru mál unnin í samvinnu við fagfólk bæði innan og utan skólans. Úrlausn mála af þessum toga er viðkvæmt ferli. Þau snerta gjarnan marga nemendur, eru flókin viðfangs og verða ekki leyst á vettvangi fjölmiðla,“ segir Erla Sigríður í tilkynningunni.
Hún nefnir að brugðist hafi verið við af festu vegna þess ofbeldismáls sem nú sé til umfjöllunar í fjölmiðlum, meðal annars með brottvísun úr skóla til lengri og skemmri tíma.
Erla Sigríður nefnir að atburðinn hafi átt sér stað í Garðabæ og að lögreglan vinni að rannsókn málsins. Stjórnendur skólans hafi ekki fengið upplýsingar um hvernig rannsókn málsins miðar, en það er einnig til rannsóknar hjá Barnaverndarnefnd Hafnarfjarðar.
„Ítreka ber að skólayfirvöld hafa brugðist við málinu að fullu leyti í samræmi við þann ramma sem þeim er sniðinn.“
Fram kemur að Flensborgarskólinn í Hafnarfirði harmi fréttaflutning af málefnum nemenda skólans síðustu daga og þá neikvæðu mynd sem hafi verið dregin upp af skólastarfinu.
„Stjórn skólans ber virðingu fyrir skoðunum nemenda og leggur áherslu á að auka samtal á milli nemenda og skólayfirvalda, tryggja sátt og öflugt skólastarf,“ segir í tilkynningunni.