Nýkrýndur Íslandsmeistari í skák er mættur á kaffihús í Borgartúni á undan blaðamanni. Rauða hárið er snöggklippt og hann er reffilegur í tauinu, enda kominn beint úr vinnunni í bankanum handan götunnar. Hjörvar Steinn Grétarsson er nafn sem flestir þekkja enda hefur hann verið áberandi við skákborðið allt frá barnsaldri. Hjörvar veit fátt skemmtilegra en að tefla, nema þá ef til vill að kenna þá list ungu fólki.
Hamingjuóskir voru við hæfi þegar blaðamaður heilsar Íslandsmeistaranum. Tilfinninguna segir hann góða, enda alltaf gaman að vinna.
„Ég beið ansi lengi eftir Íslandsmeistaratitlinum. Við erum með stig eins og forgjöf í golfi og ég var stigahæstur hér á landi og búinn að vinna Íslandsmót í öðrum útgáfum af skák en hafði aldrei unnið þennan aðal Íslandsmeistaratitil. Ég hafði tvisvar klúðrað þessu illa og pressan var farin að byggjast upp. Fólk var farið að spyrja sig: „Ætlar hann ekki að fara að vinna þetta mót?“ Ég var óopinberlega besti skákmaður á Íslandi en þetta var ekki að detta. Í mótinu í fyrra byrjaði ég ekkert sérstaklega vel en vann svo sex síðustu skákir í röð. Afi minn og amma grétu næstum því þegar ég vann mótið,“ segir hann og segir að í ár hafi hann því getað keppt afslappaðri því pressan var ekki jafn mikil og áður.
„Það skilaði sér í góðri taflmennsku og sigurinn var verðskuldaður,“ segir Hjörvar, en hann er rétt að verða 29 ára gamall.
Skákáhuginn kviknaði hjá Hjörvari strax í fyrsta bekk í Rimaskóla þegar hann var sex ára.
„Það var mikil skákhefð þar. Þáverandi skólastjóri, Helgi Árnason, rak þarna skákstefnu og þá byrjaði ég að tefla. Eldri bróðir minn Birgir var svolítið að tefla og kenndi mér mannganginn. Þetta átti strax mjög vel við mig,“ segir hann og segist fljótt hafa orðið góður miðað við aldur.
„Ég varð svo Íslandsmeistari undir tíu ára, tólf ára og fjórtán ára og Norðurlandameistari í flestum aldursflokkum. Ég var ekkert sérstaklega duglegur til að byrja með og það kom svolítið í bakið á mér. En ég er mikill keppnismaður,“ segir Hjörvar og segist hafa fengið útrás í skák því að í íþróttum gat Hjörvar ekki skarað fram úr.
„Ég og bróðir minn erum báðir með taugasjúkdóm sem veldur því að við erum með skerta hreyfigetu. Það útilokaði að ég gæti farið í boltaíþróttir þótt keppnisskapið væri fyrir hendi, og því gerði skákin mikið fyrir mig. Þar fann ég mig,“ segir Hjörvar og segir aðeins fjórar manneskjur á Norðurlöndum með þennan sama sjúkdóm, svo vitað sé.
„Í dag get ég alveg gengið upp Esjuna með því að vera einstaklega þrjóskur og halda mér í formi, en ég gæti aldrei keppt í fótbolta eða handbolta. Það væri útilokað,“ segir hann og útskýrir sjúkdóminn.
„Heilinn sendir taugaboð til vöðvanna um að halda áfram en í mig skortir efnið í vöðvunum sem tekur við þeim boðum, þannig að vöðvarnir hætta eða verða fyrr þreyttir. En ég er fljótur að ná mér,“ segir hann og segir engin lyf til sem geta hjálpað.
„Mér var snemma sagt frá þessu og ég talaði mjög opinskátt um þetta enda var ég ekki á pari við félagana í fótbolta og þurfti að fara í sjúkraþjálfun tvisvar í viku. Ég vildi ekki láta þetta stoppa mig,“ segir hann, en hann varð fljótt mjög metnaðargjarn og vildi ná langt í skákinni.
„Ég var greindur með athyglisbrest fyrir um fjórum árum,“ segir hann og nefnir að hann sjái það vel þegar horft er til baka en vegna þess hversu vel hann stóð sig í skóla fór það fram hjá öllum.
„Þegar strákar standa sig vel í skóla er síður tekið eftir þessu,“ segir Hjörvar.
Eftir grunnskóla fór Hjörvar í Versló og þaðan í lögfræði og er hann nú með meistaragráðu í lögfræði og aðra í skattarétti og reikningsskilum. Hjörvar stóð sig vel á öllum skólastigum, þrátt fyrir mikla fjarveru út af skákinni.
„Ég hef alltaf haft gaman af námi og sérstaklega ef það er krefjandi.“
Nú þarftu að halda athygli bæði í skák og í lögfræðinámi og þú ert með athyglisbrest. Hvernig fer það saman?
„Ég fór með mömmu í sálfræðitímann til að fá greiningu, en foreldrar eru beðnir að koma með. Þegar mamma var spurð hvað ég hefði átt erfitt með sem krakki sagði hún að þótt ég hefði verið eldklár og gert hlutina hratt, þá gerði ég fljótfærnisvillur, gat aldrei setið kyrr og átti erfitt með að þegja þegar til þess var ætlast af mér,“ segir hann og segist alls ekki hafa getað einbeitt sér að því sem hann hafði ekki áhuga á, eins og textílmennt, en í því fagi fékk hann aðeins fjóra í grunnskóla.
„Ég á mjög erfitt með að sitja kyrr og bíða eftir andstæðingnum. Lengsta skák sem ég hef teflt var sjö og hálfur tími og þá var ég líka alveg búinn á því. En ég vann, sem betur fer,“ segir hann og nefnir að einbeitingin skipti miklu í skák.
Hvaða kosti þarf góður skákmaður að hafa?
„Keppnisskapið hjálpaði mér að ná langt þegar ég var yngri. Ef ég mætti á æfingu og tapaði skák vegna ákveðins afbrigðis fór ég heim og skoðaði það og tapaði þá ekki aftur í því afbrigði. Ég náði að stjórna keppnisskapinu; ég gat alveg farið að gráta eða orðið reiður en náði að beisla skapið. Í seinni tíð myndi ég segja að það skipti miklu að vera skipulagður. Ég er í fullri vinnu í Arion banka, ég er starfandi stórmeistari, ég er nýbúinn í meistaranámi og á lítinn strák,“ segir Hjörvar.
„Svo síðustu tvö, þrjú ár myndi ég segja að jákvæðni sé mikilvægust. Ef mér líður vel, lifi heilbrigðu lífi og fjölskyldulífið gengur vel, þá er ég betri skákmaður. Þegar maður er jákvæður er maður meira skapandi og tilbúinn til að berjast og um leið njóta augnabliksins. Það hefur skilað mér mestu undanfarið,“ segir Hjörvar og segir jákvæðni og lífshamingju útskýra velgengni síðustu ára.
„Ég er ánægður í vinnunni minni og náminu og í góðu sambandi. Ég væri að ljúga ef ég segðist eyða jafn miklum tíma og margir kollegar mínir í skákina og mér leið ekki eins og ég væri tilbúinn í þetta Íslandsmót skáklega séð. En ég sagði sjálfum mér: „Þú vannst þetta á síðasta ári þannig að nú skaltu njóta.“ Það skilaði sér,“ segir hann og segist hafa náð þremur langþráðum markmiðum á árinu 2021.
„Í fyrsta lagi vildi ég ná 2.600 Elo-stigum, í öðru lagi verða Íslandsmeistari og í þriðja lagi komast á heimsbikarmótið,“ segir hann en öllum þremur markmiðunum náði hann á mun skemmri tíma en hann hafði þorað að vona.
„Þetta var magnað; ef einhver hefði sagt mér að ég næði þessum markmiðum á næstu fimm árum hefði mér þótt það geggjað, en það gerðist á þremur mánuðum,“ segir Hjörvar.
„Ég verð að viðurkenna að eftir það átti ég erfitt með að mótivera mig því ég nærist svo mikið á markmiðum. Ég man ég hugsaði: „Hvað nú?““
Í dag er Hjörvar í hópi um 300 bestu skákmanna heims.
„Ef maður kemst yfir 2.600 stig er maður meðal þeirra 200-250 bestu í heiminum. Efstu tvö hundruð þeirra gera ekkert annað en að sinna skákinni. Ég er auðvitað með ýmislegt annað í gangi. Fólk spyr mig oft af hverju ég hafi ekki eingöngu farið í skákina þar sem ég hafði greinilega hæfileika,“ segir hann og nefnir að einn erlendur vinur, sem hafi verið slakari skákmaður en hann á sínum tíma, hafi farið til Rússlands að læra skák og sé í dag einn af fimmtíu bestu skákmönnum heims.
„Á meðan hann fór til Rússlands fór ég í Versló. Ég hefði getað farið sömu leið og hann en ég vissi að ég vildi gera margt annað líka,“ segir hann og segir foreldra sína hafa hvatt sig til að setja ekki öll eggin í sömu körfu.
„Þau sögðu mér að mála mig ekki út í horn í skákinni og spurðu mig: „Hvað ef þú vaknar upp 35 ára með enga menntun, enga reynslu og þú allt í einu hatar skák?“ Ég sagði að það myndi nú aldrei gerast en friðaði þau með því að fara í lögfræðina og kunni ágætlega við það. Ég sé ekki eftir neinu,“ segir hann og segir líf skákmannsins ekki alltaf eftirsóknarvert.
„Það er mikið um ferðalög en staðreyndin er sú að áttatíu prósent af tímanum ertu einn heima hjá þér að grúska í bókum. Ég er of mikil félagsvera. Í seinni tíð hefur mér þótt skemmtilegra að kenna en að tefla sjálfur og ég elska að hjálpa krökkum að ná markmiðum sínum. Ég kenni mjög mikið og sé að þau elska skák jafn mikið og ég gerði þegar ég var yngri og geri enn í dag. Ég sé sjálfan mig í þeim. Ég hafði góðar fyrirmyndir þegar ég var yngri. Helgi Ólafsson er mín helsta fyrirmynd en það var hann sem gerði mig að stórmeistara og þar myndaðist vinátta sem endist ævilangt,“ segir Hjörvar og segist finna fyrir því að nú sé komið að honum að vera fyrirmynd.
Hjörvar segist ekki tefla mikið á netinu því hann hefur meira gaman af því að sjá andstæðinginn augliti til auglitis.
„Skák er ansi magnaður leikur af því þú ert bara einn í liði. Ef þú tapar geturðu ekki kennt neinum öðrum um. Sjálfið þitt er undir. Ég tek sálfræðina á þetta og sé til dæmis ef andstæðingurinn er farinn að svitna, andvarpa, fara oftar á klósettið eða fóturinn er farinn að titra,“ segir hann og segist nýta sér stress hjá andstæðingnum.
„Þess vegna skiptir jákvæðnin svona miklu máli. Skák er eins og stríð. Þú þarft að mæta, vera tilbúinn að takast á við áföll ef þú leikur af þér, og að takast á við hið óvænta. Fyrst og fremst þarftu að vera jákvæður, í jafnvægi og með keppnisskap,“ segir hann.
Hvaða markmið hefur þú sett þér núna?
„Ég vil sýna ungum krökkum að það er hægt að skara fram úr í skák, vera í vinnu og með fjölskyldu. Það er krefjandi en hægt. Gæti ég náð lengra ef ég væri bara að hugsa um skák alla daga? Alveg hiklaust, en ég væri ekki jafn góð manneskja og jafn jákvæður, sem hefur aftur góð áhrif á skákina, þannig að þetta er allt samhangandi. Þannig að nú vil ég vera góð fyrirmynd og halda áfram að kenna. Ég er á leiðinni til Indlands með landsliðinu en alltaf þegar ég er beðinn að keppa fyrir Íslands hönd gef ég kost á mér. Ég elska að tefla og nota öll tækifæri sem ég get til þess.“
Ítarlegt viðtal er við Hjörvar Stein í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina.