„Ég hvorki reyki né drekk, safna ekki byssum eða ek um á vélsleðum. Þetta er mitt sport. En auðvitað tekur á að bera sjálfan sig á torg,“ segir Ægir Breiðfjörð Jóhannsson, húsasmiður, rithöfundur og hagyrðingur í Stykkishólmi, um fyrstu glæpasöguna, Skot í myrkri, sem hann sendi frá sér vorið 2020.
Raunar svo mjög að Ægir fékk hjartaáfall skömmu eftir að bókin kom út, eða haustið 2020.
„Ég var kolstíflaður og var þræddur og settir í mig gormar. Læknirnin sagði að ég hefði verið hætt kominn. Ég var fluttur suður með þyrlu en þar sem ég er svo skrýtinn var ég ekki með hugann við veikindin á leiðinni heldur hvort lýsingin á þyrlufluginu í bókinni minni væri trúverðug.“
Hann hlær.
Ægir lá í rúma viku á hjartadeildinni meðan hann beið eftir að fá græddan í sig gangráð. Tímann notaði hann til að semja smásögu, í kollinum. Þegar læknirinn var í miðjum klíðum við að setja í hann gangráðinn heyrðist uml frá sjúklingnum. Læknirinn brást þegar við og spurði hvað væri að en fékk það svar að sjúklingurinn væri að tala við sjálfan sig og forma setningar í texta.
Þegar heim var komið sló Ægir söguna inn á tölvuna og er hana að finna á fyrrnefndri vefsíðu hans.
– Hvernig er heilsan í dag?
„Hún er fín. Ég er í fullri vinnu og mæti reglulega í ræktina. Mér skilst að þetta líti ágætlega út.“
– Eru fleiri skáldsögur í sjónmáli?
„Nei, ekki eins og er. Núna stendur hugur minn frekar til þess að skrá ákveðna þætti í sögu bæjarins. En það er kostnaðarsamt verk og öflugir aðilar þyrftu að koma að málum. Við sjáum til.“
Kveikjan að Skoti í myrkri voru nokkrar hugmyndir sem höfðu safnast að honum gegnum tíðina. „Þér að segja þá var ég líka orðinn svo skelfilega leiður á þessum eilífu „Nordic noir“-reyfurum, þar sem allt gengur út á spennu og ógeð. Fyrir minn smekk er spenna ofmetin í glæpasögum. Spenna kemur ekki í staðinn fyrir vel heppnaðan texta. Sjálfur vil ég fara með mína lesendur í ferðalag og freista þess að koma þeim á óvart.“
Aðalsögusvið bókarinnar, sem ber nafnið Skot í myrkri, er annars vegar Vestmannaeyjar æskuáranna og hins vegar Stykkishólmur í teygjanlegum nútíma. Á bókarkápu segir: „Að lokinni þjóðhátíð rekur lík af erlendum farmanni á fjöru í Vestmannaeyjahöfn. Áratugum síðar hverfur aðalknattspyrnukempa Stykkishólmsliðsins KFH með dularfullum hætti á ögurstundu í íþróttasögu bæjarins.“
Skyldu þessi tvö mál tengjast og þá hvernig?
Bókin var komin í burðarliðinn um það leyti sem Covid-farsóttin skall á og því spurning að hrökkva eða stökkva. „Ég ákvað að stökkva, ef ske kynni að engir lesendur yrðu lifandi með haustinu,“ segir hann glottandi. „Sú ákvörðun kom niður á endanlegum frágangi, sem hefði mátt vera betri, en svona er lífið. Upplagið var ekki stórt en nú hefur bókin einnig verið lesin inn fyrir notendur Hljóðbókasafnsins og því vonandi fleiri sem njóta lestursins. Hvernig til tókst verða aðrir að meta en ég hef ekki fengið annað en góða dóma í mín eyru. Ég fékk til dæmis mjög skemmtileg viðbrögð frá eldri konu úr Eyjum sem býr hér á svæðinu en hún kvaðst alltaf hafa vitað upp á hár hvar hún var stödd meðan á lestrinum stóð,“ segir Ægir en það rímar við það sem honum finnst svo skemmtilegt – að skrifa ljósmyndir.
Nánar er rætt við Ægi í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins en hann er umsjónarmaður fasteigna á St. Franciskusspítalanum og þekkir sögu hússins og systranna, sem þar voru lengi, eins og lófann á sér.