Þarf að greiða 2,5 milljónir í skaðabætur

Landspítalinn við Hringbraut.
Landspítalinn við Hringbraut.

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt karlmann í sex mánaða skilorðsbundið fangelsi og til að greiða Landspítalanum um tvær og hálfa milljón króna í skaðabætur fyrir fjárdrátt og brot í opinberu starfi sem skrifstofustjóri læknaráðs spítalans.

Einnig er honum gert að greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns upp á 420 þúsund krónur.

Maðurinn var ákærður fyrir að hafa dregið sér samtals rúmlega fjórar milljónir króna af fjármunum starfs- og gjafasjóðs læknaráðs Landspítalans á árunum 2012 til 2016.

Málið var dómtekið 26. apríl síðastliðinn eftir ákæru frá héraðssaksóknara.

Maðurinn var ákærður fyrir að hafa dregið að sér fjármuni í alls 34 tilvikum með millifærslum út af þremur bankareikningum sjóðsins. Fjármununum ráðstafaði hann inn á persónulega bankareikninga sína.

Í þinghaldi gekkst maðurinn skýlaust við brotum sínum. Hann gerði hvorki athugasemdir við málavexti né fjárhæðir í ákæru. Hann krafðist sýknu sökum þess að brotið væri fyrnt.

Héraðsdómur sagði brotið aftur á móti fyrnast á tíu árum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert