„Þarna er fólk hreinlega að afhjúpa sig“

Prófessorarnir telja að betri þjónusta í sameinuðum sveitarfélögum útskýri aukið …
Prófessorarnir telja að betri þjónusta í sameinuðum sveitarfélögum útskýri aukið fasteignaverðmæti. Myndin er úr safni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sameining þriggja eða fleiri sveitarfélaga eykur verðmæti fasteigna á viðkomandi svæði miðað við niðurstöður rannsóknar tveggja íslenskra prófessora. Segja þeir niðurstöðurnar benda til þess að sameining sveitarfélaga bæti þjónustu við íbúa og að þær mæli með frekari sameiningum.

Rannsóknina gerðu dr. Vífill Karlsson, prófessor við viðskiptadeild Háskólans á Bifröst, og Grétar Þór Eyþórsson, prófessor við viðskiptadeild Háskólans á Akureyri. Eftir að hafa, bæði saman og í sitt hvoru lagi, skoðað ávinning sameiningar sveitarfélaga lengi ákváðu þeir að skoða ávinninginn út frá breytingum á fasteignaverði. Með þeim hætti, segir Vífill, varð þeim mögulegt að fá almenna og víðtæka niðurstöðu.

Hækkaði meira eða lækkaði minna

Grétar og Vífill lögðust yfir gögn frá árabilinu 1992 til 2006 þegar um helmingur sameininga sveitarfélaga frá upphafi var framkvæmdur. Á því tímabili hækkaði fasteignaverð og lækkaði. Á þeim svæðum þar sem fasteignaverð hafði verið að lækka lækkaði það minna í kjölfar sameiningar og á þeim svæðum sem það hafði verið að hækka hækkaði það meira eftir sameiningu.

„Við vorum búnir að skoða hvort rekstrarkostnaðurinn lækki eftir sameiningu en hann gerir það ekki eða í besta falli mjög lítið. Við vitum að útsvarið hefur ekki breyst. Þá er í rauninni eina skýringin að þjónustan hefur lagast í kjölfar sameiningar. Og það rennir önnur og umfangsminni rannsókn okkar stoðum undir. Það skilar sér í því að það annað hvort hægir á brottflutningi eða laðar nýja íbúa að og styður á þann hátt við þróun íbúðaverðs,“ segir Vífill um aukið verðmæti fasteigna eftir sameiningu.

„Þegar tvö sveitarfélög eru sameinuð eru meiri líkur en minni á að það skili sér ekki í hærra verði. Þegar þrjú sveitarfélög eða fleiri eru sameinuð eru miklu meiri líkur á því að það hreyfi við þjónustunni.“

Prófessorarnir tveir, Grétar Þór (t.v.) og Vífill (t.h.).
Prófessorarnir tveir, Grétar Þór (t.v.) og Vífill (t.h.).

Ósætti með sameiningu geti haft áhrif á svörin

Grétar og Vífill höfðu áður gert skoðanakönnun þar sem fólk var spurt hvort það hefði orðið vart við betri þjónustu en Vífill segir erfitt að meta þjónustustigið með þeim hætti, í fyrsta lagi þar sem slíkar kannanir þurfa helst að vera gerðar bæði fyrir og eftir sameiningu og í öðru lagi þar sem þær mæla einungis ástandið eins og það er á ákveðnum tímapunkti en ávinningurinn af sameiningum í formi betri þjónustu getur tekið marga mánuði eða ár að koma fram og e.t.v. lengur í vitund íbúanna. Að auki bendir Vífill á að viðhorf fólks til viðkomandi sameiningar eða sameininga yfirleitt geti skipt máli eða litað hvernig það svarar til um ávinning þeirra.

„Ég tala nú ekki um ef fólk hefur verið fúlt út í sameininguna eða eitthvað þess háttar, ekki endilega vegna þess að þjónustan hafi versnað heldur einfaldlega vegna þess að það var á móti sameiningunni. Svo er þetta fólk spurt hvort þjónustan hafi batnað og það segir þá hún hafi snarversnað því það er drullufúlt með sameininguna,“ segir Vífill.

Verðmætið lýgur ekki

Aukið verðmæti fasteigna við sameiningu lýgur aftur á móti ekki.

„Þarna er fólk hreinlega að afhjúpa sig,“ segir Vífill sem notaði sömu aðferð til þess að meta ávinning af Hvalfjarðargöngunum í sínu doktorsnámi.

Mæla ykkar niðurstöður með því að ráðist sé í frekari sameiningar sveitarfélaga á Íslandi?

„Já, þær gera það,“ segir Vífill.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert