Fyrirséð að hækkun leigu verði kröftug

Húsnæði í Reykjavík.
Húsnæði í Reykjavík. mbl.is/Sigurður Bogi

Hækkun leigu er hafin á nýjan leik. Fyrirséð að hún verður kröftug þegar fer að gæta aukinnar eftirspurnar eftir leiguhúsnæði frá innfluttu vinnuafli og auknum fjölda ferðamanna.

Þetta kemur fram í Kjarafréttum Eflingar þar sem fjallað er um stöðu leigjenda.

„Alþjóðlegur samanburður sýnir að íslenska velferðarkerfið stendur ekki nærri nógu vel að því að verja leigjendur fyrir óöryggi og verðhækkunum hins tiltölulega óhefta leigumarkaðar sem hér hefur verið við lýði,“ segir í þar einnig.

Bent er á að leiga hafi hækkað um 102% á höfuðborgarsvæðinu á síðustu 10 árum. Það sé mun meira en í öðrum Evrópulöndum. Ákvörðun ríkisstjórnarinnar um hækkun húsaleigubóta um 10% færi flestum leigjendum 2.000 til 3.200 krónur á mánuði, sem telji ekki upp í miklar hækkanir sem hafi orðið á framfærslukostnaði og enn síður upp í miklar hækkanir á leiguverði síðustu ára.

„Húsaleigubætur þarf að hækka umtalsvert og veita þarf alvöru viðnám gegn taumlausum hækkunum leiguverðs,“ segir Efling.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka