Erla Sigríður Ragnarsdóttir, skólameistari Flensborgarskólans, harmar upplifun þeirra nemenda sem kalla eftir frekari aðgerðum og meiri stuðningi í ofbeldis- og eineltismálum, einkum vegna ofbeldismáls sem þar kom upp.
Hún segir mikilvægt að fram komi að brottrekstur nemenda sé íþyngjandi stjórnvaldsákvörðun, sem þurfi að vera vel rökstudd. Fjórir voru reknir úr skólanum til styttri tíma eftir ofbeldismálið en einn til lengri tíma.
„Ég harma mjög þessa upplifun þeirra. Í tengslum við þetta ofbeldismál, sem hefur verið til umfjöllunar, teljum við okkur hafa brugðist við málinu að fullu leyti í samræmi við þann ramma sem við getum unnið eftir. En við getum auðvitað alltaf gert betur og við erum tilbúin í það samtal, það er ekki spurning. Við höfum reynt ýmsar leiðir til þess að bregðast við þessum málum og við átt samtöl við alla hlutaðeigandi aðila, bæði nemendur og foreldra þeirra og oftar en einu sinni. Boðið aðstoð við námið í gegnum nemendaþjónustuna og sálfræðiaðstoð. Nú tekur við sú vinna að kortleggja enn betur hvað við getum gert,“ segir hún.
Þótti ekki ástæða til þess að vísa öllum gerendum úr skólanum?
„Nei og það eru ýmsar ástæður sem liggja þar að baki og ég get ekki rætt hér. Hafa ber einnig í huga að þetta er stjórnvaldsákvörðun samkvæmt stjórnsýslulögum sem þarf að vanda vel. Þetta eru oft flókin mál og taka tíma enda þarf að rannsaka málið ítarlega og þetta er vandmeðfarið því þetta er íþyngjandi aðgerð fyrir ungt fólk, að vera vísað úr skóla. Og þetta var niðurstaðan.“
Spurð hvort skólastjórnendur viti um farveg málsins hjá lögreglu segir hún:
„Við höfum ekki fengið neinar upplýsingar um það hvernig rannsókn málsins miðar. Við höfum fengið upplýsingar frá foreldrum og nemendum sjálfum. En ég sat fund með fulltrúum lögreglu og barnaverndarnefndar Hafnarfjarðar hér í vikunni eftir páska og fékk þær upplýsingar að þetta væri í vinnslu. Ég óskaði á sínum tíma eftir lögregluskýrslu en fékk ekki aðgang.“
Nemendur hafa meðal annars óskað eftir tilkynningahnappi til þess að auka aðgengi að því að tilkynna ofbeldi. Er það ekki eitthvað sem er hægt að verða við?
„Þetta höfum við rætt og það eru ýmsir kostir og gallar við það. Áhyggjur okkar eru auðvitað þær að það komi nafnlausar ábendingar sem við getum ekki brugðist við. Samkvæmt viðbragðsáætlun vegna eineltis og ofbeldismála á heimasíðu skólans þá eru nemendur hvattir til að tilkynna og láta vita af ofbeldi eða einelti til annað hvort námsráðgjafa, umsjónarkennara eða stjórnenda og það hefur reynst vel. Við vitum ekki til þess að það sé einhver brotalöm á því, hér eru okkar dyr opnar og nemendur geta alltaf leitað til okkar. Kennara, námsráðgjafa og allra sem eru að vinna hér á hverjum degi. En við skoðum þetta og höfum nú þegar sett í ferli.“
Hvar óánægju MORFÍs-liðsins varðar segir Erla að skólinn geti ekki tryggt öryggi nemenda ef þau eru eftirlitslaus í skólanum að næturlagi:
„Það voru meðal annars foreldrar sem kvörtuðu og bentu okkur á að þetta væri ekki eðlilegt, að nemendur væru hér eftirlitslausir á nóttunni og þar af leiðandi ekki að mæta í skólann daginn eftir. Það eru nokkur ár síðan þessar ábendingar bárust. En þetta var eitthvað sem var kallað eftir, og við urðum við þessum óskum á sínum tíma, m.a. vegna þess að við getum ekki ábyrgst öryggi og heilsu nemenda á þessum tíma sólarhrings. Við höfum reynt að sníða þessu stakk, nemendur geta verið hér að undirbúa og sinna félagslífinu fram á kvöld og um helgar og ég veit að fleiri framhaldsskólar hafa sama hátt á.“