Rússneska sendiráðið heldur ekki opnar samkomur

Stytta af konu sem var reist að frumkvæði Rússa.
Stytta af konu sem var reist að frumkvæði Rússa. mbl.is/Árni Sæberg

Rússneska sendiráðið mun ekki standa fyrir neinum opnum samkomum í tilefni af sigurdeginum í ár, af öryggisástæðum. Rússneska rétttrúnaðarkirkjan mun þó standa fyrir minningarathöfn í Fossvogskirkjugarði, lögregla verður viðstödd að sögn skipuleggjenda. Um er að ræða árlegan viðburð en hann verður lágstemmdari í ár vegna stríðsins í Úkraínu.

„Við munum koma saman, biðja og leggja blóm við minnisvarða meðan við minnumst þeirra sem létu lífið í seinni heimsstyrjöldinni og minnumst hins sameiginlega sigurs,“ segir Anna Valdimarsdóttir, einn af skipuleggjendum athafnarinnar. Hún segir sigurdaginn vera vonartákn og til marks um það að öll stríð endi með friði.

Auglýstu ekki

Vanalega mæta um hundrað manns í Fossvogskirkjugarð til þess að halda upp á sigurdaginn en Anna á von á að hópurinn verði minni í ár. Tekin hafi verið ákvörðun um að auglýsa ekki viðburðinn og verður hann meira í formi trúarlegrar minningarathafnar en hátíðahalda á þessum sorgartímum. Hún kveðst vilja senda þau skilaboð til Íslendinga að það sé mögulegt að halda frið á íslenskri grundu, rússneska rétttrúnaðarkirkjan sé opin fyrir samtali. Aðspurð hver hennar afstaða sé til stríðsins segist hún vona að það taki enda sem fyrst. Hún, sem íslenskur ríkisborgari af rússneskum uppruna, sé ekki í aðstöðu til þess að leggja dóm á aðrar þjóðir. „Ég er að reyna að skilja og meta það sem er í gangi.“ Stríðið hefur þó ekki áhrif á það hvernig hún lítur á sigurdaginn í ár.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert