Rússar halda víða hátíðlega upp á Sigurdaginn svokallaða í dag en á þeim degi fagna þeir sigri sínum yfir nasistum í seinni heimsstyrjöldinni. Hópur fólks sem mætti til að mótmæla innrás Rússa inn í Úkraínu fyrir utan rússneska sendiráðið við Túngötu í dag segir þennan dag þó ekki vera neitt fagnaðarefni.
„Þetta er hátíð morðingja og þess vegna erum við hér komin til þess að sýna heiminum að það sem er að gerast í Úkraínu núna er ekki stríð heldur fjöldamorð af hálfu rússnesku ríkisstjórnarinnar,“ segir Kristófer Gajowski mótmælandi, í samtali við blaðamenn.
Mótmælin voru ansi áhrifamikil, en mótmælendur voru berir að neðan og höfðu atað hvít föt sín rauðri málningu og tómatsósu þannig að þau virtust blóði drifin. Þá voru sumir mótmælandanna einnig með plastpoka á höfðinu.
María er ein þeirra úkraínsku kvenna sem tók þátt í mótmælunum en hún er fædd og uppalin í Bútsja og flúði hingað til lands með börn sín í mars síðastliðnum. Hluti fjölskyldu hennar er þó enn í Bútsja.
„Ég sá öll grimmdarverk rússneskra hermanna gagnvart úkraínsku þjóðinni. Ég veit að þeir stela, nauðga, beita ofbeldi og drepa til að ná sínu fram. Þeir eru hryðjuverkamenn,“ segir María í samtali við blaðamenn.
Hvað finnst þér um að Rússar séu að halda upp á Sigurdaginn?
„Þetta er enginn sigurdagur fyrir Rússa. Þessi dagur er skömm fyrir Rússa. En vonandi mun Úkraína geta haldið sinn eigin sigurdag bráðlega. Þá munum við fagna sigri okkar í seinni heimsstyrjöldinni og sigri okkar gagnvart Rússum.“
Spurð segist María fullviss um að úkraínska þjóðin muni standa uppi sem sigurvegari í stríðinu. Úkraínumenn séu upp til hópa gott fólk sem vilji aðeins búa við frið.
„Við viljum vera hluti af Evrópusambandinu en fáum það ekki. Við viljum vera hluti af siðmenntuðum heimi og sambandið ætti að gera sitt besta til að stöðva alla þessa glæpi sem rússar eru að fremja í landinu okkar.“
Hvernig getur íslenska ríkisstjórnin sýnt Úkraínu frekari stuðning?
„Hún ætti að gera eitthvað varðandi rússneska sendiráðið. Hún ætti að segja og sýna þjóðinni sinni að rússneski forsetinn og hermenn hans eru hryðjuverkamenn sem drepa fólk.“
Olena Zablocka var einnig á meðal þeirra sem mótmæltu en hún flutti til Íslands frá Úkraínu fyrir rúmlega níu árum síðan. Í samtali við blaðamenn segist hún lítið hafa sofið af áhyggjum síðan innrás Rússa inn í Úkraínu hófst og líkir hún rússneskum hermönnum við skepnur.
„Á hverjum degi fellur fólk í heimalandi mínu fyrir hendi rússneskra hermanna. Þeir eru ekki eðlilegt fólk. Þeir haga sér eins og dýr. Það er hægt að finna mörg dæmi um það í sögunni.
Þeir hafa gerst sekir um hryllilegar nauðganir. Þeir eru að nauðga litlum börnum sem eru allt niður í þriggja mánaða gömul. Hvernig er hægt að gera svoleiðis? Það er ekki hægt að útskýra þennan hrylling,“ segir Zablocka með tárin í augunum.
Úkraínska þjóðin geti látið sig dreyma um að þetta hræðilega stríð taki enda en það muni hvorki gerast í dag né á morgun, að sögn Zablocka.
„En ég er stolt af þjóðinni minni og hef trú á henni. Það er hægt að hrekja okkur burt frá Úkraínu en það verður aldrei hægt að taka Úkraínu frá okkur.“
Jón Einarsson, kærasti Zablocka, segir stríðið fjarlægt flestum Íslendingum en að hann upplifi það beint í gegnum í maka sinn. Honum hafi því eðlilega þótt erfitt að tilkynna Zablocku að Rússar hefðu gert innrás inn í heimaland hennar 25. febrúar síðastliðinn.
„Hún spratt úr rúminu, byrjaði að hringja í alla aðstandendur sína þar til að kanna hvort það væri í lagi með þá og hefur eiginlega verið að því alla daga síðan þá.“
Hann segir Íslendinga almennt þurfa að taka sterkari afstöðu gegn stríðinu og að það verði ekki gert nema með algeru viðskiptabanni við Rússa.
„Það verður að vera þannig að þrýstingurinn í Rússlandi komi frá þjóðinni og upp. Þetta verður ekki gert með öðrum hætti. Efnahagslegi þátturinn er það sem mun fella stríðið.“
Finnst þér að það eigi að reka rússneska sendiherrann úr landi?
„Það þarf auðvitað að viðhalda einhverju talsambandi en það þarf að sýna með mjög skýrum hætti að þetta sé ekki liðið. Það eru alltaf viðskiptalegu hagsmunirnir sem trompa hið mannlega.“
Hvað aðgerðir íslensku ríkisstjórnarinnar varðar segir Jón hana þurfa að tala minna og gera meira.
„Við erum smá þjóð og erum oft svolítið miklir viðhlæjendur í stærri klúbbi.“
María Shramko, annar mótmælandi, flúði ásamt syni sínum frá Rússlandi til Íslands 26. mars síðastliðinn. Hún segist vilja tala fyrir aðrar rússneskar konur sem vilja mótmæla innrás Rússa inn í Úkraínu en geta það ekki.
„Ég gæti ekki mótmælt á þennan hátt í heimalandi mínu. Lögreglan hefði lamið mig um leið og ég tæki af mér buxurnar innan um almenning. Vinkona mín í Rússlandi var handtekin fyrir að tjá sig um fórnarlömbin í Maríupol, fyrir að segja sannleikann. Nú mun hún sitja í fangelsi í 15 ár ásamt fjölda annarra kvenna sem hafa verið nógu hugrakkar til að mótmæla stríðinu.“
Hún segir voðaverk rússneska hersins í Bútsja hafa hreyft sérstaklega við sér og að það sé skammarlegt að rússnesku þjóðinni hafi ekki tekist að steypa Vladimír Pútín Rússlandsforseta af stóli ennþá.
„Við erum að reyna okkar allra besta en við erum gjörsamlega valdalaus. Það var t.d. eitrað fyrir Alexei Navalny, formanni stjórnarandstöðunnar í Rússlandi, áður en hann var fangelsaður og það hefur enginn gert neitt í því.
Þetta stríð er líka hörmung fyrir rússnesku þjóðina sem hefur skipst í tvær fylkingar. Ég veit að einhverjir Rússar eru hlynntir stríðinu og það er skammarlegt því rússneskir hermenn eru ekki mennskir. Þeir haga sér eins og alger skrímsli.“