Stefna Páli fyrir ærumeiðandi aðdróttanir

Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans.
Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans. mbl.is/Hari

Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, og Arnar Þór Ingólfsson, blaðamaður vefmiðilsins, ætla að stefna Páli Vilhjálmssyni, bloggara og kennara, fyrir ærumeiðandi aðdróttanir.

Þetta staðfestir Þórður Snær í samtali við mbl.is.

Páll sagði blaðamennina „eiga aðild, beina eða óbeina, að byrlun Páls skipstjóra Steingrímssonar og stuldi á síma hans“ í tengslum við umfjöllun um „skæruliðadeild“ Samherja.

„Skrifað gríðarlegt magn af ósönnum hlutum“

„Ég hef látið það vera að þessi maður hefur í mjög langan tíma og alloft skrifað gríðarlegt magn af ósönnum hlutum um mig á þessari síðu,“ segir Þórður Snær, spurður út í ástæðuna fyrir málshöfðuninni, og á þar við bloggsíðu Páls.

Páll Vilhjálmsson.
Páll Vilhjálmsson.

„Margt af því hefur verið tekið upp í meginstraumsfjölmiðlum, meðal annars í Morgunblaðinu. Hann hefur komið í viðtöl, meðal annars í Dagmálum á mbl.is og í mjög löngu viðtali við Í bítið á Bylgjunni þar sem hann hefur lagt þessar samsæriskenningar sínar fram eins og um eðlilega þjóðmálaumræðu sé að ræða. Þetta höfum við látið yfir okkur ganga hingað til,“ greinir Þórður Snær frá.

Fór yfir strikið

Aftur á móti hafi Páll á bloggsíðu sinni í byrjun apríl sett fram staðhæfingu um staðreynd um að Þórður og Arnar hafi framið alvarleg hegningarlagabrot. Þeir hafi komið að því að byrla manni og síðan stolið einhverju af honum. Þetta eigi sér enga stoð í raunveruleikanum og Páll geti ekki sýnt fram á það.

Þórður Snær segir þetta aldrei hafa verið hluta af þeirri rannsókn sem beinst hefur að þeim, heldur hafi hún snúist um meint brot á friðhelgi einkalífsins. Þetta hafi lögreglan á Norðurlandi eystra staðfest við hann.

„Þarna er farið yfir strikið. Við gáfum honum kost á því að draga ummælin til baka og biðjast afsökunar á þeim án þess að hann yrði fyrir nokkru tjóni,“ segir Þórður Snær og bætir við að Páll hafi beðið um tveggja vikna frest til að leita sér lögfræðilegrar ráðgjafar. Fresturinn hafi runnið út í dag.

Fram kemur á bloggsíðu Páls að hann ætlar ekki að verða að ósk blaðamannanna tveggja og biðjast afsökunar á ummælunum. Telur hann ummælin ekki vera röng. 

Alvarlegar ásakanir

Þórður Snær kveðst ekki geta sætt sig við þessi ummæli „hjá manni sem er búið að veita yfirbragð eðlilegheita í umræðunni, með því hvernig hann hefur fengið aðgang að meginstraumsfjölmiðlum, að það standi óhaggað að vera ásakaður um það að hafa eitrað fyrir einhverjum og síðan stolið einhverju af viðkomandi.“

Hann segir ásakanirnar mjög alvarlegar og bendir á að í málfrelsi felist ekki að segja hvað sem er um hvern sem er, hvenær sem er.

Ekki enn verið yfirheyrður

Spurður í stöðuna á rannsókn lögreglunnar á Norðurlandi eystra vegna meintra brota á friðhelgi einkalífsins segist Þórður Snær ekkert vita um hana. 14. febrúar hafi honum verið tilkynnt að það ætti að boða hann til yfirheyrslu, sem ekki hafi enn átt sér stað. Síðan þá hafi hann séð málsgögn vegna máls blaðamannsins Aðalsteins Kjartanssonar og út frá þeim sé honum „algjörlega ljóst að þessi málatilbúnaður byggir á engu“.

„Þetta snýst um það að okkur er ætlað að hafa mögulega dreift einhverjum myndböndum af kynferðislegum toga af þessum manni. Ég hef aldrei séð slík myndbönd og hvað þá dreift þeim. Fyrir mér er augljóst að málið byggir á sandi og getur ekki átt sér neinn framgang, að minnsta kosti gagnvart mér og mínum kollega Arnari,“ bætir hann við.

Kveðst hann bíða eftir að lögreglan hafi samband við hann og annað hvort kalli til yfirheyrslu og ljúki málinu þannig eða greini honum frá að hún sé hætt í vegferð sinni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert