Nýr útsýnispallur við Eiðsgrandann

Hinn nýi útsýnispallur verður byggður fyrir framan JL-húsið.
Hinn nýi útsýnispallur verður byggður fyrir framan JL-húsið.

Borgarráð hefur heimilað umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkur að bjóða út framkvæmdir vegna stígagerðar og gerðar útsýnispalls við Eiðsgranda og Ánanaust.

Kostnaðaráætlun fyrir verkið er 150 milljónir króna. Áætlað er að framkvæmdir hefjist í júní og að þeim ljúki í september 2022. Verkið hefur þegar verið boðið út og er tilboðsfrestur til 23. maí.

Framkvæmdin felur í sér að endurgera göngustíga og hluta hjólastígs meðfram nýendurgerðum sjóvarnagarði við Eiðsgranda og Ánanaust. Auk þess verður byggður nýr útsýnispallur til móts við JL-húsið. Sömuleiðis verða útbúnir nokkrir áningarstaðir með bekkjum meðfram stígnum. Loks verða sett upp minjaskilti um Ufsaklett og Ánanaust. Þessar framkvæmdir munu hefjast í kjölfar þess að endurgerð sjóvarnagarðs á svæðinu lýkur seinna í þessum mánuði.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram svohljóðandi bókun: „Hér eru stigin jákvæð skref í að bæta aðgengi að vesturströndinni í Reykjavík sem hefur verið mjög torfær og lokuð. Rétt væri að skoða næstu skref þannig að hægt verði að njóta sjávarins, útsýnisins og skjóls með því að fara niður fyrir sjóvarnagarðinn með skipulegum og öruggari hætti en nú er hægt.“ sisi@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert