Stærri verkefni fái 35% endurgreiðslu

Lilja telur frumvarpið eiga eftir að skapa fjölmörg spennandi störf …
Lilja telur frumvarpið eiga eftir að skapa fjölmörg spennandi störf og auka útflutningsverðmæti þjóðarbússins. Ljósmynd/ Birgir Ísleifur Gunnarsson

Drög að frumvarpi sem kveður á um að afmörkuð stærri verkefni í kvikmyndaiðnaði sem uppfylli ákveðin skilyrði, fái 35 prósent framleiðslukostnað endurgreiddan, eru komin í samráðsgátt stjórnvalda.

Hingað til hefur endurgreiðslan numið 25 prósentum en í tilkynningu frá menningar- og viðskiptamálaráðuneytinu segir að víða í nágrannalöndum Íslands sé hlutfallið komið í 35 prósent.

„Eru það þau lönd sem Ísland á í mestri samkeppni við í að laða til sín stærri og lengri tíma kvikmynda- og sjónvarpsverkefni og er því mikið hagsmunamál fyrir íslenskan kvikmyndaiðnað að lögin verði endurskoðuð með tilliti til þeirrar samkeppni.“

Skapa fjölmörg ný og spennandi störf

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, upplýsti ríkisstjórnina um drögin, en endurskoðun laganna var eitt af áherslumálum stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.

„Við vitum að það er mikill áhugi á þessum áformum okkar um lagabreytingu á endurgreiðslunum og við höfum haft málið í algjörum forgangi. Brýnt er að öll viðmið séu skýr og gagnsæ þar sem einn helsti styrkleiki endurgreiðslukerfisins, í alþjóðlegum samanburði, hefur verið einfaldleiki þess og skýrleiki. Það eru gríðarleg tækifæri í að efla kvikmyndaframleiðslu á Íslandi. Þessar breytingar munu skapa fjölmörg ný og spennandi störf og auka útflutningsverðmæti þjóðarbúsins,“ er haft eftir Lilju í tilkynningunni.

Leggja frumvarpið fram á vorþingi

Starfshópur hefur verið að störfum við endurskoðun laganna, en verkefni hans er að endurskoða endurgreiðsluhlutfall laganna og skoða útfærslur til hækkunar, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.

Frumvarpið verður áfram í vinnslu innan menningar- og viðskiptaráðuneytis, í samráði við fjármála- og efnahagsráðuneytið. Upphafleg áform ráðuneytisins gerðu ráð fyrir að frumvarp þessa efnis yrði lagt fram á haustþingi 2022.

Ákveðið var að flýta ferlinu og stefnt er að því að leggja frumvarpið fram nú á vorþingi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert