BA.5, undirafbrigði Ómíkron-afbrigðis kórónuveirunnar, hefur greinst hjá fjórum einstaklingum hér á landi. Fólkið veiktist af Covid-19 í lok apríl.
„Einstaklingarnir sem greindust með BA.5 hér á landi höfðu fæstir ferðast nýlega, því er ljóst að afbrigðið er sennilega komið víða út í samfélagið. Allir sem greinst hafa með afbrigðið voru fullbólusettir og enginn hafði áður greinst með Covid-19,“ segir í pistli Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis á vef embættis landlæknis.
Þar kemur fram að þar sem tilfellum kórónuveirusmita sé ekki að fjölga hér á landi og fáir séu á sjúkrahúsum sé ekki að útlit fyrir að umrætt afbrigði sé að valda útbreiddu endursmiti eða alvarlegum veikindum, í það minnsta ekki enn sem komið er.
„Áfram verður fylgst með fjölda þeirra sem greinast og afbrigðum með raðgreiningum hjá sýkla- og veirufræðideild Landspítala. Ekki er ástæða til að grípa til sértækra aðgerða vegna þessa nýja afbrigðis á þessu stigi.“
Þórólfur mælir áfram með því að fólk sem náð hefur bólusetningaraldri, þ.e. 5 ára og eldri, fái bólusetningu til þess að mögulegt sé að hindra alvarleg veikindi eins og hægt er.
„Einnig er mælt með bólusetningu þeirra sem hafa fengið Covid-19, til að draga úr líkum á endursmiti.“
Í pistli sóttvarnalæknis á vef embættis landlæknis kemur fram að endursmit með þessu nýja undirafbrigði virðist vera líklegra hjá óbólusettum en bólusettum.
„Frá því að [Ómíkron-afbrigði kórónuveirunnar] kom fram hafa nokkur undirafbrigði náð yfirtökum hvert af öðru, a.m.k. á afmörkuðu svæði. Omikron bylgjan hófst hér vegna undirafbrigðis sem kallast BA.1 en hér á landi vék það mjög hratt fyrir undirafbrigði BA.2. BA.2 náði mestri útbreiðslu hér en BA.1 hvarf þó aldrei alveg, enda lengi ráðandi í ýmsum löndum og barst því hingað endurtekið. BA.3 afbrigði hefur einnig fundist hér. Lítill munur ef nokkur hefur verið á veikindum vegna þessara afbrigða, en þau sem ná yfirhöndinni eru meira smitandi en þau sem víkja. Nokkuð er um að einstaklingar sem hafa fengið t.d. BA.1 fái síðar BA.2 en veikindin við endursmit eru alla jafna vægari en fyrstu veikindin.“