Útboð 2010 hefur reynst Strætó dýrt

Útboð á akstri frá árinu 2010 hefur reynst byggðasamlaginu dýrt.
Útboð á akstri frá árinu 2010 hefur reynst byggðasamlaginu dýrt. mbl.is/Hari

Strætó hefur ekki tekið ákvörðun um hvort dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli Teits Jónassonar ehf. gegn Strætó bs., sem var kveðinn upp 2. maí síðastliðinn, verði áfrýjað. Strætó bs. var dæmt til að greiða Teiti Jónassyni ehf. rúmlega 205 milljónir króna með vöxtum auk þess að greiða 5,1 milljón í málskostnað. Áfrýjunarfrestur er fjórar vikur frá dómsuppkvaðningu. Jóhannes Svavar Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó bs., segir að málið verði væntanlega lagt fyrir stjórnarfund í næstu viku.

Strætó birti útboðslýsingu vegna verksins sem um ræðir í febrúar 2010. Þar kom fram að það næði til aksturs almenningsvagna á 13 leiðum á höfuðborgarsvæðinu. Sjö fyrirtækjum var boðið að taka þátt í útboðinu í samræmi við undangengið forval.

Strætó ákvað að taka tilboði Hagvagna hf. annars vegar og tilboði Kynnisferða ehf. hins vegar. Síðar kom í ljós að vagnar Hagvagna hf. uppfylltu ekki kröfur forvals- og útboðsgagna. Strætó afhenti fyrirtækinu vagna svo það gæti staðið við skuldbindingar sínar.

Teitur Jónasson ehf. höfðaði mál á hendur Strætó og varð niðurstaðan sú að brotið hefði verið gegn meginreglu við umrætt útboð. Viðurkenndur var réttur Teits Jónassonar ehf. til skaðabóta úr hendi Strætó vegna missis hagnaðar sem hann hefði notið ef tilboðinu hefði ekki verið hafnað. Dómur héraðsdóms nú sneri því að upphæð bótanna.

Iceland Excursions Allrahanda ehf. (Allrahanda) fór einnig í mál gegn Strætó vegna sama útboðs.

Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu sem kom út 10. maí. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert