Kristinn Jónasson bæjarstjóri Snæfellsbæjar segir í samtali við mbl.is að honum þyki mál bronsstyttunnar Fyrstu hvítu móðurinnar í Ameríku vægast sagt furðulegt en síðasta föstudag þurfti hann að skila fyrir hönd Guðríðar- og Langabrekkuhópsins gögnum til sönnunar á eignarhaldi á styttunni.
Styttan sýnir Guðríði Þorbjarnardóttur og skapaði Ásmundur Sveinsson hana. Henni var í síðasta mánuði stolið af stöpli á Laugarbrekku á Snæfellsnesi. Síðar meir kom í ljós að verkið hefði verið tekið og notað í nýtt verk eftir þær Bryndísi Björnsdóttir og Steinunni Gunnlaugsdóttir sem nefnist Farangursheimild og sögðu þær að í verki Ásmundar fælist rasískur undirtónn.
Kristinn segir málið óskiljanlegt, enda sé verkinu klárlega stolið af þeim og það skemmt. Sem dæmi um fáránleika málsins segir hann: „Ef ég kæmi heim til þín, stæli bílnum þínum og málaði á hann rósir og segði að þetta væri listaverk, á ég þá bara að eiga bílinn?“
Enn fremur finnst honum leitt að það sé verið að gera lítið úr þeirri vinnu sem Guðríðar-og Laugarbrekkuhópurinn hefur lagt í við að upphefja sögu Guðríðar sem og kvenna almennt.
„Það sem við vorum að gera á þessum tíma var að upphefja þessa sögu þessarar konu. Svo vorum við að hugsa hvernig getum við gert þetta. Þá datt okkur í hug að fá að nota styttuna sem táknræna mynd fyrir það sem við vorum að gera, því það var búið að gera styttu um hennar sögu. Svo förum við líka til páfans með styttuna 2011 til að undirstrika hennar ferðir. Og alltaf erum við að ýta undir sögu kvenna.“
Kristinn segist vona að málið fari að klárast og að hún fari að koma heim aftur, en bendir á að það sé skemmtilegt að hún er víðförul og að það virðist fylgja styttunni sami lífstíll og fyrirmynd verksins.
Jónas Hallgrímur Ottóson, lögreglufulltrúi hjá lögreglunni á Vesturlandi, segir í samtali við mbl.is að ekki sé búið að aðskilja stytturnar ennþá. Spurður hvenær styttunni verði skilað segir hann að það verði gert þegar öll atriði eru frágengin.