Atvinnuleysi þokast niður

mbl.is/Unnur Karen

Atvinnuleysi sígur áfram niður á við. Það mældist 4,5% á landinu öllu í seinasta mánuði og minnkaði úr 4,9% milli mánaða. Voru rúmlega níu þúsund einstaklingar skráðir atvinnulausir um seinustu mánaðamót, 5.051 karl og 4.025 konur.

Vinnumálastofnun spáir því í nýútkominni mánaðarskýrslu um skráð atvinnuleysi að það minnki ennfrekar í maí og verði á bilinu 4% til 4,3%.

Atvinnulausum fækkaði alls staðar á landinu í apríl en það minnkaði þó meira á landsbyggðinni sem heild en á höfuðborgarsvæðinu. Atvinnuleysið mælist sem fyrr mest á Suðurnesjum þar sem það var 7,6% í apríl en þar hefur dregið úr atvinnuleysi á undanförnum mánuðum og minnkaði það um heilt prósentustig frá því í marsmánuði. Atvinnuleysi á Suðurnesjum hefur ekki mælst svo lágt frá því í október árið 2019.

Næstmest var atvinnuleysi í apríl 4,7% á höfuðborgarsvæðinu og minnkaði úr 5,1% í mars. „Minnst var atvinnuleysi í apríl á Norðurlandi vestra 2%, 2,2% á Vesturlandi, 2,4% á Vestfjörðum og 2,5% á Austurlandi,“ segir í skýrslu Vinnumálastofnunar.

Hópur langtímaatvinnulausra er enn stór en alls höfðu 3.087 einstaklingar verið án atvinnu í meira en tólf mánuði um seinustu mánaðamót. Fækkaði þeim um 173 frá mars en á hinn bóginn voru þeir 6.495 í lok apríl í fyrra og hefur þeim fækkað umtalsvert eða um 3.408 á milli ára.

Þegar litið er á þróunina í einstökum atvinnugreinum og meðal starfsstétta kemur í ljós að mest var hlutfallsleg fækkun atvinnulausra í apríl í ferðatengdum atvinnugreinum. Fækkaði atvinnulausum í farþegaflutningum um 15% frá mars og um tæplega 11% í gistiþjónustu. „Alls voru 3.857 erlendir atvinnuleitendur án atvinnu í lok apríl og fækkaði um 240 frá mars. Þessi fjöldi samsvarar um 9,9% atvinnuleysi meðal erlendra ríkisborgara,“ segir í skýrslunni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert