„Þetta heppnaðist mjög vel í fyrra og því endurtökum við leikinn og hátíðin verður þeim mun veglegri í ár,“ segir Þórgnýr Thoroddsen, einn eigenda Bjórlands og skipuleggjandi Bjórveldishátíðarinnar á Kex hosteli.
Bjórveldishátíðin verður haldin í annað sinn um aðra helgi, dagana 20.-21. maí. Hátíðin er haldin í tengslum við nýsköpunarviku og rétt eins og í fyrra geta gestir dreypt á ógrynni af bjórtegundum frá öllum helstu smábrugghúsum landsins.
„Áherslan er eingöngu á íslenskan handverksbjór og við kynnum litlu brugghúsin. Það passar vel við nýsköpunargeirann í heild sinni en ég kem þaðan sjálfur,“ segir Þórgnýr sem er einn stofnenda brugghússins Álfs.
„Við erum að jafnaði með svona 25 starfandi lítil brugghús hér á landi. Yfir báða dagana verðum við með bjór frá þeim öllum, hvorki meira né minna,“ segir Þórgnýr.
Hann segir að fyrirkomulag hátíðarinnar henti öllum, fólk þurfi ekki að vera innmúrað og innvígt í heim handverksbrugghúsa til að geta skemmt sér vel þar. „Almennt á bjórhátíðum er miðinn dýr og bjórinn frír. Við viljum frekar að fólk geti komið og skemmt sér án þess að þurfa að ákveða að fjárfesta í bjórkaupum. Því er ódýrt inn og fólk fær bjórkrónur fyrir miðann sem það getur nýtt til að kaupa sér bjór. Ef því sýnist svo getur það svo fjárfest í fleiri bjórkrónum og fengið meiri bjór. Þetta er hátíð fyrir alla, ekki bara bjórlúðana,“ segir hann og hlær. Miðasala fer fram á heimasíðu Bjórlands.
Hátíðin er sem fyrr segir haldin í lok nýsköpunarviku og því munu margir úr þeim geira gleðjast á Kex hosteli. „Þetta er eins konar uppskeruhátíð og þarna verður fjölbreyttur og glaðlyndur hópur fólks sem mætir. Þetta verður einstakt partí.“
Þórgnýr segir að fyrir áhugasama gefist á hátíðinni tækifæri til að kynna sér fjölda brugghúsa sem ekki eru beint á allra vitorði. „Það er svo skemmtilegt við íslensku bruggsenuna að það er rosalega mikið af brugghúsum sem hinn almenni neytandi hefur ekki hugmynd um. Meðal þeirra sem verða hjá okkur er Húsavík öl, KHB eða Kaupfélag Héraðsbúa frá Borgarfirði eystra, Múli og Austri á Egilsstöðum, Smiðjan frá Vík, Beljandi frá Breiðdalsvík, Segull 67 frá Siglufirði, Dokkan frá Ísafirði, Steðji og svo brugghúsin í bænum. Til að mynda Álfur, Ægir, Malbygg, RVK, Gæðingur... það er af nógu að taka. Og ef við erum heppin fáum við eitthvað frá Jóni ríka. Svo til að seðja mannskapinn er hægt að kaupa pítsur hjá Kex og þeir félagar hjá Arctic Pies verða með okkur og afgreiða bæði vegan- og kjötbökur.“
Viðtalið birtist fyrst í Morgunblaðinu 9. maí.