Dæmdur fyrir sérstaklega hættulega árás

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt karlmann í 15 mánaða fangelsi, þar af 12 skilorðsbundið, og til greiðslu 600 þúsund króna í miskabætur fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás.

Í ákæru héraðssaksóknara kemur fram að maðurinn hafi 11. september 2018 veist með ofbeldi að manni í bifreið sem var lagt í grennd við Reykjanesbæ, stungið hann með hníf í vinstri upphandlegg og tvívegis í vinstra læri með þeim afleiðingum að hann hlaut þrjú eins sentímetra stungusár, eitt á hendi og tvö á fótum.

Maðurinn var einnig ákærður fyrir að hafa hótað fjölskyldu mannsins ofbeldi ef hann leitaði til lögreglu. Við þingfestingu málsins féll ákæruvaldið frá lýsingunni um að hótanirnar hafi beinst að fjölskyldu hans.

Maðurinn játaði skýlaust brot sín eftir að ákærunni var breytt. Hann var dæmdur til að greiða fórnarlambinu 600 þúsund krónur í miskabætur, en farið var fram á eina milljón króna. Honum var einnig gert að greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns upp á 279 þúsund krónur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka