Sérlega þung umferð var í höfuðborginni nú síðdegis og má hana líklega rekja til áreksturs sem varð við hringtorgið neðan við Bauhaus á Vesturlandsvegi.
Að sögn varðstjóra hjá umferðardeild lögreglunnar lenti rafmagnsbíll í árekstri og leið langur tími þar til dráttarbíll kom á staðinn og ekki tókst því að færa bílinn. Slíkir bílar eiga það til að læsa öllu og var því ekki hægt að ýta honum eða færa.
Stöðvaði bílinn því umferð alfarið á annarri akrein og stífluðust þá Vesturlandsvegur og Miklabraut að Grensásvegi.
„Það þarf ekki mikið til að stífla umferðina því hún er bara svo þung á þessum tíma,“ bætti varðstjórinn við.