Samkomulag um nýjan miðbæ í Þorlákshöfn

Elliði Vignisson, bæjarstjóri Ölfuss, og Karl Þráinsson, framkvæmdastjóri Arnarhvols, undirrituðu …
Elliði Vignisson, bæjarstjóri Ölfuss, og Karl Þráinsson, framkvæmdastjóri Arnarhvols, undirrituðu samkomulagið. Ljósmynd/Aðsend

Fyrr í dag undirrituðu fulltrúar Sveitarfélagsins Ölfus og fulltrúar framkvæmdafélagsins Arnarhvols samkomulag um byggingu miðbæjar í Þorlákshöfn. Samkomulagið byggir á gildandi aðalskipulagi með áherslu á hvernig nýta má svæðið í kringum Selvogsbrautina til að skapa manneskjulegan og fallegan miðbæ. Þetta kemur fram í tilkynningu

Hinn nýi miðbær mun rísa norðan Selvogsbrautar og mótast af 200 metra langri göngugötu þar sem gert er ráð fyrir uppbyggingu á skrifstofum, verslunum, þjónustu og íbúðabyggð auk nauðsynlegra opinna svæða og torga sem styðja við mannlíf og menningu.

Hér má sjá hvar miðbærinn verður og hvernig hann mun …
Hér má sjá hvar miðbærinn verður og hvernig hann mun líta út. Ljósmynd/Aðsend

Þá stefna aðilar samkomulagsins að samvinnu um byggingu fjölnota menningarsalar í hinum nýja miðbæ sem myndi meðal annars nýtast fyrir tónlistarviðburði og til sýninga á listmunum, ljósmyndum, safnamunum og fleira.

Í tilkynningunni kemur fram að samkomulagið við Arnarhvol sé með þeim hætti að Arnarhvoll skuldbindi sig til uppbyggingar hins nýja miðbæjar á grundvelli deiliskipulags sem aðilar vinni í sameiningu, þannig að á svæðinu rísi eftirsóknarverð, hagkvæm og aðlaðandi byggð sem styrki Sveitarfélagið Ölfus í sessi sem eftirsóknarverðan búsetukost.

Í samkomulaginu sé skýrt tekið fram að skipulagsvaldið sé eftir sem áður allt á hendi sveitarfélagsins eins og vera beri. Þá greiði Arnarhvoll allan kostnað við framkvæmdina þar með allan kostnað við gatnagerð, götulýsingu, yfirborðsfrágang og fleira.

Telur að hönnun og skipulagi ljúki í haust

Haft er eftir Elliða Vignissyni, bæjarstjóra Ölfuss, að hann sé bjartsýnn á að hægt verði að ljúka hönnun og skipulagi svæðisins strax í haust og að framkvæmdir geti hafist fljótlega í kjölfarið.

„Í framhaldi af uppbyggjandi samtali milli sveitarfélagsins og Arnarhvols, um m.a. þá miklu uppbyggingu sem hér er að eiga sér stað lýsti Arnarhvoll áhuga sínum á að standa að metnaðarfullri uppbyggingu nýs miðbæjarkjarna í Þorlákshöfn. Við sem hér búum þekkjum vel hversu öflugt mannlífið í Þorlakshöfn er. Nýi miðbærinn okkar mun án vafa bjóða upp á umhverfi sem laðar til sín fólk, eykur þjónustustigið og eflir mannlíf og menningu,“ er haft eftir Elliða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert