Settur í lífslokameðferð gegn vilja aðstandenda

Sigríður Dúa Goldsworthy, segir lækninn á HSS hafa virt óskir …
Sigríður Dúa Goldsworthy, segir lækninn á HSS hafa virt óskir aðstandenda að vettugi og ekki fylgt meðferðarátælun frá Landspítalanum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Aðstandendur Gríms Karlssonar sem lést á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja (HSS) í júní árið 2017 hafa ákveðið að kæra til lögreglu lækninn sem hafði umsjón með meðferð hans á meðan hann dvaldi á stofnuninni.

Aðstandendur segja lækninn hafa sett Grím í lífslokameðferð gegn þeirra vilja og í óeðlilegum flýti, en sjálfur hafði Grímur ekki getu til að taka ákvarðanir eftir heilablæðingu sem hann varð fyrir í kjölfar slyss.

Sigríður Dúa Goldsworthy, uppeldisdóttir Gríms, segir í samtali við mbl.is það hafa verið mjög skýrt af hálfu aðstandenda að þeir vildu ekki að Grímur færi í lífslokameðferð, enda gengi það í berhögg við þær leiðbeiningar og aðhlynningaráætlun sem fylgdi Grími þegar hann var fluttur af Landspítalanum á HSS.

„Það var engin leið að stoppa manninn“

Sigríður segir lækninn á HSS hvorki hafa tekið mark á gögnum um meðferð, sem fylgdu Grími frá heila- og taugasérfræðingi Landspítalans, né hlustað á aðstandendur. Hann hafi virt bæði að vettugi. Þá hafi hann verið ófaglegur í samskiptum. Hennar upplifun var sú að læknirinn hafi viljað koma lífslokameðferð af stað í miklum flýti.

„Það var engin leið að stoppa manninn. Læknirinn í Keflavík var búinn að ákveða þetta og honum lá svo mikið á að hann ætlaði bara að klára þetta um hvítasunnuna. Hann gat ekki einu sinni beðið eftir því að systir mín kæmi heim, en hún var stödd erlendis. Kannski hefði Grímur aldrei náð góðum bata, en það átti að láta reyna á það. Það var búið að segja að þetta tæki lengri tíma en hann var byrjaður að opna augað og þetta var í ferli. Við erum því öll afar ósátt. Ekki náðist heldur í lækni Gríms á Landspítalanum fyrr en einhverjum dögum seinna því hann var í fríi þessa hvítasunnuhelgi,“ segir Sigríður.

Nafn læknisins sem hafði umsjón með meðferð Gríms á HSS hefur komið upp í tengslum við mál annars læknis sem nú sætir lögreglurannsókn grunaður um að hafa valdið ótímabæru andláti níu sjúklinga, en hann starfaði einnig á HSS.

Var í fullu fjöri og enn að vinna

Grímur var 81 árs þegar hann lenti í slysi í maí árið 2017 með þeim afleiðingum að hann fékk heilablæðingu og gekkst undir heilaskurðaðgerð á Landspítalanum í kjölfarið. Læknirinn sem gerði aðgerðina taldi að Grímur ætti ágætar líkur á því að ná einhverjum bata þrátt fyrir háan aldur, vegna þess hve líkamlega hraustur hann var fyrir slysið. Batinn yrði þó alltaf hægari en hjá yngra fólki.

„Aðgerðin tókst alveg 100 prósent og það var ekkert sem kom upp á. Svo var þetta bara spurning um að bíða og sjá hvað gerðist,“ segir Sigríður. Grímur hafi verið í fullu fjöri þegar slysið átti sér stað og enn að vinna, þó hann væri kominn á níræðisaldur. Líkamlegt atgervi hans hafi verið á við sextugan mann.

Um mánuði eftir slysið höfðu orðið hægar en jafnar framfarir hjá Grími, sem enn átti þó langt í land með að ná bata. „Hann var farinn að geta opna annað augað þegar þarna var komið,“ útskýrir Sigríður.

Læknirinn á Landspítalanum tjáði aðstandendum að enn væri bjúgur við heilann sem myndi væntanlega minnka með tímanum. Grímur þyrfti í raun bara meiri tíma og áframhaldandi umönnun til sjá hvað mikið gengi til baka af þeim skaða sem hafði orðið.

Mótmæltu því að Grímur færi á HSS

Af því Grímur var með lögheimili í Reykjanesbæ var ákveðið að hann yrði fluttur á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja þar sem meðferð hans yrði haldið áfram. Ættingjarnir mótmæltu því hins vegar. „Þá voru ekki fallegar sögur frá Keflavík, það var kallað sláturhúsið manna á meðal þarna suður frá, en þeir sannfærðu okkur um að þetta væri alveg óhætt,“ segir Sigríður. Fyrirspurn hafi verið send á HSS um hvort stofnunin treysti sér til að taka við sjúklingnum, sem vissulega var þungur í umönnun. Því hafi verið játað.

Sigríður segir umræddan lækni á HSS hins vegar strax hafa farið gegn leiðbeiningum læknisins á Landspítalanum sem meðhöndlaði Grím, og sett hann á líknandi meðferð án samráðs og gegn vilja aðstandenda hans. Ákveðið meðferðarplan hafi fylgt Grími yfir á HSS og fara hafi átt eftir því. Hann hafi til að mynda fengið með sér tvo poka af næringu og insúlín-penna til að tryggja að engin röskun yrði á meðferð hans. En Grímur glímdi við insúlín-háða sykursýki sem hann hafði góða stjórn á, að sögn Sigríðar.

Sigríður segir Grím hafa opnað augað og sýnt svörun við því sem hún sagði kvöldið sem hann lagðist inn á HSS. Ástand hans hafi því verið svipað og þegar hann lá á Landspítalanum, en aðstandendum hafði verið sagt að flutningurinn gæti tekið á og að hann þyrfti tíma til að jafna sig á eftir.

Grímur var fluttur af Landspítalanum á HSS, þar sem hann …
Grímur var fluttur af Landspítalanum á HSS, þar sem hann lést fjórum dögum síðar. mbl.is

Segir lækninn á HSS hafa „argað“ á sig

Þegar hún hringdi daginn eftir til að spyrjast fyrir um hvernig fyrsta nóttin hefði gengið, tjáði hjúkrunarfræðingur henni að Grímur væri með hita. Læknirinn á HSS hringdi svo í Sigríði síðar um daginn og sagði Grím ekki sýna neina svörun, hann væri meðvitundarlaus, ekki væri hægt að ná sambandi við hann og að hann væri að deyja. Boðaði hann jafnframt til fjölskyldufundar daginn eftir, á hvítasunnudag. Þessu mótmælti Sigríður, án árangurs.

Þegar Sigríður heimsótti Grím um kvöldið var hann með meðvitund, að hennar sögn. Hann hafi opnað annað augað og sýnt viðbrögð við því sem hún sagði.

Í heimsókninni tók Sigríður eftir því að Grímur var ekki að fá vökva og næringu í æð eins og lagt hafði verið upp með. Hann var því ekki að fá sömu meðferð og hann fékk á Landspítalanum og rof hafði orðið á meðferðinni í rúman sólarhring. Sigríður óskaði eftir því að meðferðinni, sem læknir Gríms á Landspítalanum hefði lagt upp með, yrði haldið áfram, en starfsfólk HSS hafi neitað að verða við þeirri beiðni. Sigríður segir lækninn á HSS hafa brugðist ókvæða við kröfunum og „argað“ á hana að þarna réði hann en ekki læknirinn á Landspítalanum.

Morfíni hafi verið dælt í Grím þar til hann dó

Á fjölskyldufundi sem fram fór á hvítasunnudag mótmæltu aðstandendur Gríms því að hann yrði settur í lífslokameðferð og ítrekuðu þá kröfu að hann fengi áframhaldandi meðferð eða yrði fluttur frá HSS. Sigríður segir lækninn hafa verið mjög reiðan og að hann hafi allavega einu sinni staðið upp og ætlað að rjúka út af fundinum. Þá hafi hann neitað að taka við bréfi sem hún vildi afhenda honum, sem fjallaði um málið eins og það horfði við henni.

Læknirinn hefur viðurkennt að hafa verið í ójafnvægi á fundinum af persónulegum ástæðum. Honum hafi runnið í skap og ekki haldið ró sinni, eins og hann orðar það í svari sínu vegna kvörtunar aðstandenda.

Þrátt fyrir kröftug mótmæli aðstandenda hélt læknirinn sínu striki við meðferð Gríms, að sögn Sigríðar.

„Hann setur hann á morfín í trássi við vilja fjölskyldunnar og gekk í berhögg við það sem lagt var upp með frá Landspítalanum. Þeir dældu í hann morfíni, en vildu ekki segja mér hve mikið hann fékk, og maðurinn auðvitað bara dó,“ segir Sigríður, en Grímur lést, aðfararnótt 7. Júní 2017, fjórum dögum eftir að hann lagðist inn á HSS.

Lagði fram kvörtun til embætti landlæknis 

Sigríður lagði fram kvörtun til embættis landlæknis í kjölfarið vegna meintrar vanrækslu og mistaka eða meintrar ótilhlýðilegrar framkomu heilbrigðisstarfsmanns við veitingu heilbrigðisþjónustu.

Hún segir að heila- og taugasérfræðingur Gríms á Landspítalanum hafi skilað inn bréfi til landlæknis í tengslum við kvörtunina þar sem fram kom að hann hefði haft ákveðnar hugmyndir um hvernig meðferð Gríms skyldi háttað, en læknar væru hins vegar ekki alltaf sammála.

Þá segir hún lækninn á HSS hafa sagt ósatt í sínum tilsvörum, sem mbl.is hefur undir höndum. Hann hafi meðal annars sagt að Grímur hafi verið meðvitundarlaus allan tímann á HSS og ekki opnað augun. Það sé ekki rétt. Einnig kemur fram í svarinu að Grímur hafi ekki svarað verkjaáreiti.

Taldi að Grímur væri deyjandi maður

Mat læknisins á HSS var að um væri að ræða deyjandi mann á mikilli meðferð og möguleikar á bata ákaflega litlir. Þá var hann með getgátur um að smáæðbreytingar vegna sykursýkinnar hefðu valdið frekari heilaskaða og skemmdirnar því líklega meiri en tölvusneiðmyndir sýndu. Segist hann hafa ráðfært sig við annan lækni sem var á sama máli.

Einnig hafi hann rætt við sérfræðinga á Landspítalanum sem hafi verið sammála um að batahorfur hafi verið afleitar. Að lokum hafi hann náð í lækninn sem hafði umsjón með meðferð Gríms á Landspítalanum, sem hafði verið í fríi, og hann hafi einnig verið sammála um afleitar horfur, að fram kemur í svarinu.

Læknirinn á HSS segir jafnframt að samskipti við aðstandendur hafi verið erfið, en tekur á sig ákveðna sök vegna þess hve illa upplagður hann var á fjölskyldufundinum. Misvísandi upplýsingar kunni hins vegar að skýra viðbrögð aðstandenda. „Sú staðreynd að aðstandendur höfðu fengið á Landspítala að einhverju leyti aðrar upplýsingar um batahorfur sjúklings kann að skýra viðbrögð þeirra þegar mat lækna HSS var kynnt þeim,“ segir í svarinu. Öll meðferð á HSS hafi hins vegar verið „kórrétt“ að hans mati.

Kvörtuðu aftur þegar mál annars læknis fóru í rannsókn 

Óháður læknir sem fenginn var til að leggja mat á málið hjá embætti landlæknis komst svo að þeirri niðurstöðu að Grímur hefði líklega átt stutt eftir.

„Við fengum ekki að vita hvort læknirinn fékk upplýsingar um ástandið á Grími eins og það var þegar hann fór frá Landspítalanum eða hvort sá fékk upplýsingar um hvernig ástandið á honum var eftir þrjá daga í Keflavík án allrar aðhlynningar. Það skiptir miklu máli,“ segir Sigríður. Þá var aðstandendum neitað um aðgang að sjúkraskýrslum Gríms.

„Við vorum mjög ósátt,“ segir Sigríður um niðurstöðu málsins.

Þegar svo mál læknisins af HSS, sem nú sætir lögreglurannsókn, kom upp á síðasta ári lagði fjölskyldan fram nýja kvörtun til embætti landlæknis og óskaði eftir því að málið yrði tekið aftur til skoðunar. Aðstandendur vildu jafnframt fá að vita hvort læknirinn sem sá um meðferð Gríms hefði komið að einhverjum þeirra mála sem hinn læknirinn sætti rannsókn vegna. Við því fengust engin svör og endurupptöku málsins var hafnað.

Þá kom til tals innan fjölskyldunnar að kæra málið til lögreglu en Sigríður segist einfaldlega ekki hafa haft þrek í það á þeim tímapunkti.

Hugsaði að hún gæti ekki þagað lengur

Nýlega rakst hún svo á grein á Mannlíf.is  þar sem umræddur læknir er bendlaður við mál þess læknis er sætir rannsókn. „Þar kom fram að hann væri bara grunaður í einu máli en þá hugsaði ég með mér að nú gæti ég ekki þagað. Þó það taki á að fara eina ferðina enn af stað með þetta, þá er þetta ekki bara eitt mál. Það er líka mál frá árinu 2017,“ segir Sigríður og vísar þar til máls Gríms.

Sigríður ákvað því að hafa samband við lögregluna og segir hún stöðu málsins nú þannig að hún fari væntanlega í vikunni í formlegt viðtal vegna kæru, hjá lögreglunni á Suðurnesjum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert