Foreldrar í Hlíðaskóla og Háteigsskóla hafa lýst yfir áhyggjum af fyrirætlunum borgarinnar um að sameina unglingastig Hlíða-, Háteigs- og Austurbæjarskóla í einn safnskóla, í Vörðuskóla á Skólavörðuholti.
Foreldrafélög Hlíða- og Háteigsskóla hafa skilað sinni umsögninni hvort um skýrslu skóla- og frístundasviðs um framtíðarskipan skóla- og frístundastarfs í Austurbæjarskóla, Háteigsskóla, Hlíðaskóla og Vörðuskóla.
Þar kemur fram að meirihluti foreldra í skólunum er alfarið á móti fyrirætlununum. Hjá foreldrafélagi Háteigsskóla var lögð fram könnun meðal foreldra og bárust 142 svör.
„Svörin sem við fengum frá foreldrum voru mjög afgerandi. Þessar hugmyndir um að setja þennan Vörðuskóla á laggirnar og hafa í honum krakka úr Háteigsskóla féllu alls ekki í kramið. Andstaða var algjörlega yfirgnæfandi,“ segir Atli Viðar Thorstensen hjá foreldrafélagi Háteigsskóla.
„Foreldrar og forráðamenn sem svöruðu könnuninni voru í 90% tilvika búnir að kynna sér skýrsluna, þar sem gerð var grein fyrir þessum tillögum, svo þetta er ígrunduð afstaða.“
Í könnuninni kom fram að 83,8% svarenda segja að þau vilji að barn þeirra geti verið í 1.-10. bekk í sama grunnskólanum innan hverfis, en 16,2% svarenda segjast vilja að barn þeirra útskrifist úr hverfisskólanum eftir 7. bekk og sæki nám í 8.-10. bekk í safnskóla.
Það sama er upp á teningnum í könnun sem lögð var fyrir forráðamenn í Hlíðaskóla. Þar bárust 174 svör. „Helsta niðurstaða þessarar könnunar er sú að foreldrar Hlíðaskóla eru afdráttarlaust mótfallnir hugmyndum sem kynntar eru um flutning unglingadeildar í Vörðuskóla og einnig eru flestir almennt mótfallnir hugmyndum um safnskóla,“ segir í umsögninni.
Ástæðurnar eru að sögn Atla helst tvær: „Við höfum áhyggjur af umferðaröryggi og að þetta sé ekki í flútti við tillögur borgarinnar um græn og sjálfbær hverfi. Svo finnst okkur óvarlegt að vera að senda börn sem einhver tilraunadýr inn í þessa skólabyggingu þar sem ljóst er að þarf að gera endurbætur vegna myglu. Það hræðir okkur dálítið.“
Í umsögn foreldranna í Hlíðaskóla er vísað í uppkast að skýrslu Mannvits frá mars 2019 þar sem fram kom að vísbendingar væru um myglu í húsinu og sem ástæða þætti til að skoða betur.
Þórey Björk Sigurðardóttir, hjá foreldrafélagi Hlíðaskóla, segir þetta tal um safnskóla í Vörðuskóla „glórulaust“, sem og allur tíminn og peningurinn sem hafi farið í það mál, þegar ekki sé vitað í hvaða ástandi húsnæðið er og vísar þar til myglunnar sem fundist hefur. „Það er bara allt rangt við þetta.“
Hún lýsir, eins og Atli, einnig yfir áhyggjum af fjarlægðinni og umferðaróöryggi.