Reykjavíkurborg hafnar því alfarið að borgarstjóri eða starfsmenn Reykjavíkurborgar hafi gerst brotlegir við lög en Loftkastalinn ehf. hefur kært borgarstjóra og tvo starfsmenn borgarinnar til héraðssaksóknara.
Félagið lagði fram kærurnar vegna meintra brota á sveitastjórnarlögum, stjórnsýslulögum, hegningarlögum og upplýsingalögum „fyrir að stuðla ekki að framfylgd í samræmi við skipulagslög og skipulagsreglugerð“.
Í skriflegu svari frá Reykjavíkurborg vegna fyrirspurnar mbl.is kemur fram að kærurnar hafi ekki borist borgarstjóranum Degi B. Eggertssyni eða starfsmönnum borgarinnar.
„Hvorki borgarstjóra né umræddum starfsmönnum Reykjavíkurborgar hafa borist þær kærur sem fjallað er um í frétt Morgunblaðsins sem birtist í blaðinu í dag og á mbl.is.
Reykjavíkurborg geti því eðli málsins samkvæmt ekki tjáð sig um kærurnar.
Því er þó alfarið hafnað að borgarstjóri eða starfsmenn Reykjavíkurborgar hafi brotið lög í málinu.
Í því samhengi er vísað til úrskurðar Landsréttar frá 18. febrúar 2022 í máli nr. 6/2022 og úrskurðar úrskurðanefndar umhverfis- og auðlindamála frá 30. september 2020. Í báðum tilfellum er málatilbúnaði Loftkastalans hafnað,“ segir í svari frá samskiptasviði borgarinnar.