Sveitarstjórn Bláskógabyggðar ákvað í vikunni að fresta ákvörðun um framtíð hjólhýsasvæðsins við Laugarvatn. Umræða hefur verið að undanförnu um framtíð svæðisins, sem er í skógarlundi rétt fyrir innan Laugarvatn. Til skamms tíma voru áform um að rýma svæðið, meðal annars vegna eldhættu og ófullnægjandi brunavarna. Vegna þessa hefur verið kurr meðal eigenda hýsanna, sem vilja málamiðlun af hálfu Bláskógabyggðar.
Eigendurnir hafa með sér hagsmunasamtök og fulltrúar þeirra kynntu sveitarstjórn nú í vikunni breytingar á byggingarreglugerð, en nú þarf ekki lengur að sækja um og fá byggingarleyfi fyrir hjóla- og stöðuhýsum sé staðsetning í samræmi við deiliskipulag. Einnig voru reifaðir möguleikar sveitarfélagsins á að þekkjast boð eigenda hýsanna um að kosta úrbætur á svæðinu gegn því að fá að vera áfram í lundinum við Laugarvatn. Um 200 hýsi voru á svæðinu þegar mest var, en um fjórðungur þeirra er nú farinn.
„Nú er ný sveitarstjórn að taka við. Okkur finnst því rétt að hún taki ákvörðun í þessu máli, faglega, út frá öllum þeim gögnum sem borist hafa að undanförnu,“ segir Helgi Kjartansson, oddviti í Bláskógabyggð.