Veðurstofa Íslands segir að kalt loft streymi yfir landið og að „ansi vetrarlegt“ sé um að litast.
Jörð er til að mynda hvít víða á höfuðborgarsvæðinu þennan morguninn. Ljósmyndari Morgunblaðsins myndaði snjóbreiðuna við Elliðavatn laust fyrir klukkan fimm og má með sanni segja að útlitið sé ekki sumarlegt.
„Í dag verða norðaustan og norðan 8-15 m/s og allvíða snjókoma eða slydda, en hægari vindur sunnanlands fram eftir degi og skúrir eða él. Á vegum norðan- og austanlands má því víða búast við vetraraðstæðum, einkum á fjallvegum. Hiti 0 til 7 stig, mildast sunnantil. Það dregur úr ofankomu í kvöld,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings veðurstofunnar.
„Hægari norðlæg átt á morgun, en strekkingur austast á landinu fram eftir degi. Dálítil él á norðanverðu landinu með hita nálægt frostmarki, en sunnan heiða verður bjart að mestu og hiti 3 til 8 stig yfir daginn, en þar eru þó líkur á einhverjum síðdegisskúrum.“