Hópur fyrrverandi flugfreyja og þjóna hjá Icelandair vill meina að margir þeirra sem höfðu sig frammi í kjarabaráttunni sumarið 2020 hafi mátt gjalda fyrir það með starfi sínu. Uppsagnir margra þeirra hafi ekki verið afturkallaður í Covid-faraldrinum, þrátt fyrir starfsaldursákvæði í kjarasamningi, og aðrir með háan starfsaldur hafi ekki fengið endurráðningu.
Þrjár flugfreyjur og einn flugþjónn, sem mbl.is ræddi við eru sannfærð um að fyrirtækið hafi notað tækifærið í faraldrinum til að losa sig við óþægilegt starfsfólk. Tvö þeirra hafa fengið það staðfest að eitthvað sem þau sögðu um fyrirtækið varð til þess að uppsagnir þeirra voru ekki afturkallaðar eða þau endurráðin.
Um 900 flugfreyjum og þjónum var sagt upp hjá Icelandair í apríl árið 2020 vegna Covid-faraldursins. Sumarið sama ár, þegar línur tóku að skýrast í fluggeiranum voru uppsagnir um 200 flugfreyja og þjóna afturkallaðar, en flugfélagið fór ekki eftir starfsaldri, líkt og kveðið er á um í kjarasamningi.
Fyrir liggur að gengið var framhjá stórum hópi starfsfólks með háan starfsaldur við afturköllun uppsagnanna, en málið fór fyrir félagsdóm og var niðurstaða dómsins sú að Icelandair hafi borið að afturkalla uppsagnir út frá starfsaldurslista. Með dómnum var viðurkennt að brotið hefði verið gegn rétti 69 flugfreyja og þjóna um afturköllun uppsagnar og á sá hópur rétt á skaðabótum. Í þessum hópi eru flugfreyjur með jafnvel 30 til 40 ára starfsreynslu.
Starfsfólkið sem mbl.is ræddi við segir Icelandair hafa getað afturkallað uppsagnirnar eftir eigin geðþótta í skjóli ríkisstjórnarinnar, því ekki hafi verið gætt að því við afgreiðslu uppsagnarleiðar stjórnvalda í faraldrinum, að skýrt væri kveðið á um að afturköllun uppsagna skyldi verða í starfsaldursröð. Það komi hins vegar fram í kjarasamningi flugfreyja, en ákvæðið hafi verið virt að vettugi.
Í skriflegu svari til mbl.is í maí á síðasta ári sagði Elísabet Helgadóttir, mannauðsstjóri Icelandair, að við ráðningar hafi verið horft til starfsreynslu en einnig frammistöðu sem metin hafi verið út frá skilgreindum hæfniviðmiðum. Þá hafi verið tekið mið af jafnréttissjónarmiðum og markmiðum Icelandair í þeim efnum, sem og lögð áhersla á fjölbreytileika innan hópsins.
Icelandair hefur boðist til að greiða hluta þeirra 69 sem rétt eiga á bótum frá fyrirtækinu, fjögurra mánaða uppsagnafrest, að frádregnum atvinnuleysisbótum.
„Þeir sem Icelandair ákveða að fái bætur, sem eru reyndar ekki allir 69, eru að fá milli 200 þúsund krónur og upp í milljón. Það er nú allt og sumt. Það er ekki nauðsynlegt að notast við frádráttinn en þeir kusu að gera það. Það lýsir enn betur vanvirðingunni gagnvart starfsfólki sem hafði verið þar innanborðs í tugi ára. Þeir sem hafa slasast, verið veikir eða voru í launalausu leyfi fá mögulega engar bætur,“ segir Margrét Sturlaugsdóttir, fyrrverandi flugfreyja og starfsmaður á skrifstofu Icelandair. Hún starfaði í tæp 18 ár hjá fyrirtækinu og er ein af þeim 69 sem brotið var á.
„Við þurfum semsagt að sækja okkar mál ef við sættum okkur ekki við þeirra málalok þrátt fyrir að dómur hafi fallið okkur í vil og sumir séu ennþá atvinnulausir,“ bætir hún við.
Blaðamaður mbl.is settist niður með Margréti og þremur fyrrverandi kollegum hennar. Þau eru í hópi þeirra 69 sem brotið var á eða fengu ekki endurráðningu vorið 2021, þrátt fyrir háan starfsaldur og flekklausan feril innan fyrirtækisins, að þeirra sögn. Það hafi að minnsta kosti aldrei verið kvartað yfir þeim og þau viti ekki betur en að almenn ánægja hafi verið með þeirra störf. Þau hafi verið vel liðin og hafi átt í góðum samskiptum við samstarfsfélaga sína.
Tvö af þeim sem mbl.is ræddi fengu það staðfest í viðtölum eftir uppsögn að eitthvað sem þau sögðu um fyrirtækið hafði þau áhrif að gengið var framhjá þeim við afturköllun uppsagna. Flugþjónn með 12 ára starfsaldur var til að mynda sagður hafa neikvætt viðhorf til fyrirtækisins eftir að hafa bent á nokkur atriði sem hann taldi mega bæta á vinnufundi fyrirtækisins. Á sama fundi benti hann á ýmislegt sem vel hefði verið gert. Það neikvæða virðist hins vegar hafa setið í stjórnanda fundarins, að hans sögn.
„Þann 3. desember 2019 var vinnustaðafundur. Icelandair auglýsti eftir fólki og mér þótti þetta áhugavert af því ég vildi gjarnan tjá mig, bæði um það sem gott var gert og það sem mátti bæta. Ég var valinn, einn af tólf, og tjáði mig alveg og nefndi hvað væri að; það væri komin gjá á milli skrifstofunnar og okkar sem værum að vinna á gólfinu Ég benti á fleiri atriði. Þetta var svona vinnustofa sem fyrirtækið var með, þar sem við vorum að rýna til gagns. Ég fékk það staðfest í fyrra að þetta varð mér að falli. Það var ekkert annað á mig, ég var fyrirmyndar flugþjónn,“ segir Óskar Á. Kristberg Ástþórsson, fyrrverandi flugþjónn hjá Icelandair, til 12 ára.
„Ég undirbjó mig vel og nefndi fullt af atriðum þar sem Icelandair hefur staðið sig mjög vel. Ég nefndi mín persónulegu mál sem ég hafði lent í og hvað fyrirtækið tók vel á þeim málum.“
Hann segist ekki hafa átt rétt á viðtali vegna uppsagnarinnar, en barðist fyrir því og fékk það í gegn í september síðastliðnum. Hann vildi fá skýringar á því af hverju hann var ekki endurráðinn. Með alla sína reynslu á bakinu og flekklausan feril hjá fyrirtækinu.
„Þar fékk ég staðfest að þetta var ástæðan. Ég hafði neikvætt viðhorf til fyrirtækisins,“ segir Óskar.
Þau segja óttastjórnun ríkja innan fyrirtækisins. Fólk þori ekki að tjá sig af ótta við að vera sagt upp. Núverandi starfsfólk þori ekki einu sinni að læka færslur fyrrverandi kollega sinna á samfélagsmiðlum. Ekki einu sinni þegar dómur félagsdóms féll og ljóst var að brotið hafði verið á fólki. Þau hafa hins vegar engu að tapa, enda hafa þau öll snúið sér að öðrum verkefnum. Þau segjast einfaldlega vilja vekja athygli á vinnubrögðum Icelandair sem að þeirra mati eru siðlaus.
Þau segja mjög vont fyrir þá sem ekki fengu endurráðningu að vita ekki af hverju. Fólk hafi almennt ekki átt rétt á viðtölum í kjölfar uppsagnanna en þeim finnst að yfirmenn hafi reynt að koma sér hjá því að horfast í augu við starfsfólkið. Það komi sérstaklega illa við þá sem störfuðu hjá fyrirtækinu í tugi ára eða nánast alla sína starfsævi. „Það er svolítið sárt og fólk er í lausu lofti. Það er svo vont hvað það eru margir sem fengu ekki að vita af hverju þeir fengu ekki inn aftur,“ segir Óskar.
„Það fengu allir staðlaðan póst þar sem kom fram að endurráðningar hefðu verið byggðar á frammistöðumati. En af hverju var fólk svona lengi þarna í vinnu ef það var svona ómögulegir starfskraftar?“ spyr Guðrún Ýr Sigbjörnsdóttir, fyrrverandi flugfreyja hjá Icelandair, en hún starfaði hjá fyrirtækinu í rúm 19 ár.
„Það voru flest allir þessir 69 úti þennan fyrsta vetur 2020 til 2021, en í fyrrasumar héldu flestir að þeir myndu fá vinnuna sína aftur. Fólk fékk engar upplýsingar, það var ekki beðið að skila neinu, ekki einkennisfötum, töskum, aðgangskortum, spjaldtölvum eða neinu þannig að það var alveg hægt að áætla að fyrirtækið myndi ráða okkur aftur. Fólk tók því engar ákvarðanir með líf sitt, enda hafði það ekki aðrar upplýsingar. Sumir eiga meira að segja tölvupóstssamskipti þar sem þeim er tjáð að þau séu bara næst inn og þar fram eftir götunum þannig að eðlilega beið það bara. Svo var sótt um fyrir sumarið 2021 en þá var viðkomandi ekki nógu hæfur eða skorti fjölbreytileika og einhver með þriggja mánaða reynslu fékk vinnu,“ segir Margrét.
Þrátt fyrir að dómur félagsdóms nái aðeins til 69 starfsmanna þá segja þau málið snerta miklu fleiri, enda hafi verið gengið framhjá stórum hópi til viðbótar sem ætti rétt á endurráðningu samkvæmt kjarasamningi.
„Það er skýrt að þeim bar skylda til að ráða inn eftir starfsaldri. Það er engin grein um frammistöðu, þeir höfðu ekki leyfi til þess að nýta það eitthvað,“ segir Margrét.
Þá gagnrýna þau einnig ráðningar nýliða fyrir sumarið, sem haldi áfram eins og ekkert hafi í skorist. „Það er fullt af fólki enn ekki komið með vinnuna sína aftur, en samkvæmt kjarasamningi þá eiga þeir rétt á að ganga fyrir sem eru með 12 mánaða eða lengri starfsaldur. Svo nú er verið að brjóta á þeim öllum með nýliðaráðningum. Þetta eru sennilega einhver hundruð,“ segir Margrét.
Hún þekkir það að vera beggja vegna borðsins því hún starfaði einnig á skrifstofu Icelandair um árabil og gegndi yfirmannastöðu í síðustu í hópuppsögn, í hruninu árið 2008.
„Þá var sagt upp stórum hluta flotans og við vorum hvert og eitt okkar uppi á skrifstofu með ákveðinn hóp og héldum vel utan um hann. Mikið var lagt upp úr því að halda fólki upplýstu og bjóða öllum persónulegan fund með yfirmönnum. Þau fengu meira að segja að hafa aðgang að innra kerfinu okkar til að fá allar upplýsingar og halda sér í lesformi varðandi handbækur og annað. Ég veit að það var ekki hægt að hafa eins fundi vegna Covid en það hefði verið hægt að hafa Teams-fundi, svo það er ekki afsökun. Það hefðu verið hæg heimatökin ef það hefði verið vilji til þess. Það átti bara ekki að grípa okkur,“ segir Margrét.
Líkt og áður sagði telja þau að þeir sem höfðu sig frammi í kjarabaráttunni hafi mátt gjalda fyrir það þegar kom að afturköllun uppsagna og endurráðningum.
„Mér finnst erfiðast að kyngja því að vinnan var tekin frá þeim sem tjáðu sig. Þeim sem fóru í sjónvarpið eða tjáðu sig við blaðamenn,“ segir Guðrún. Þau segja fyrirtækið svo bara hafa skáldað einhverjar ástæður fyrir því að ekki var hægt að afturkalla uppsögn viðkomandi eða endurráða.
Guðrún fékk þær skýringar að hún hafi átt í ágreiningsmálum við bæði yfirmenn og undirmenn. Talað var um samstarfsörðugleika. Það eigi sér hins vegar enga stoð í raunveruleikanum. „Ég er alltaf glöð, þetta var svo fáránlegt. Það voru engin dæmi því þau höfðu ekki neitt. En ég gat ekkert sagt.“
Margrét segir Icelandair hafa átt í vandræðum með að finna eitthvað á hana þar sem hún þekkti vel til á skrifstofunni og hafði haft aðgang að öllum sínum gögnum. Hún fékk þær upplýsingar að borist hefði skjáskot. Hún fékk hins vegar ekki frekari skýringar á því. Hvorki hvaðan skjáskotið kom, né hvað kom þar fram.
„Ég var í átta ár uppi á skrifstofu með öll gögn um mig fyrir framan mig og ég veit að það var ekkert að þar. Þau gátu ekki búið neitt til um mig því þau vissu að ég vissi hvernig mín ferilskrá hjá félaginu liti út. Þau gátu þá ekki talað um samstarfsörðugleika.“
Margrét tjáði sig í kjarabaráttunni 2020, en hún segist hafa gert það á jákvæðum og hvetjandi nótum enda með mikinn metnað fyrir fyrirtækinu og stéttarfélaginu, að hennar sögn.
„Ég reyndi alltaf að vera málefnaleg og tjá báðar hliðar en ég gagnrýndi kollega mína fyrir að nálgast okkur ekki á betri hátt og bjóða okkur kannski bara samstarf. Ef þau hefðu haft samband við hópinn þá hefðu eflaust allir verið tilbúnir að taka á sig góða prósentu lækkun í þrjú ár á meðan það erfiðasta gengi yfir. Það voru allir til í allskonar en við fengum bara skítkast. Ég var að reyna að benda mínum fínu kollegum á að þú nærð engu með því að kalla fólk „klessumálaða hálfvita á hælum“. Það var allskonar látið flakka. Þetta voru kjarasamningarnir en það var enginn að tala við okkur, það var bara verið að tala um okkur,“ segir Margrét.
Tvær elstu dætur Margrétar hafa báðar lokið þjálfun hjá Icelandair og önnur starfað síðan 2017 hjá fyrirtækinu, en hvorug þeirra fær nú vinnu. „Fólk verður að meta það sjálft hvort það er vegna þess að ég hef þorað að tjá mig eða einhvers annars, en málfrelsi er dýrmætara en allt annað og verður ekki fórnað fyrir svona vinnubrögð. Þær eru sjálfstæðir einstaklingar með sínar skoðanir en ekki mínar.“
Díana Júlíusdóttir starfaði sem flugfreyja hjá Icelandair í 19 ár en hún fékk ekki endurráðningu þegar hún sóttist eftir því. Hún fékk staðlaðan svarpóst um að hún hefði ekki uppfyllt hæfniviðmið sem sett voru fram í atvinnuauglýsingu. Hún segist alltaf hafa fengið að heyra að hún væri góður starfsmaður og hún hafi aldrei á sínum starfsferli fengið áminningu. Hún veit til þess að einhverjir sem fengu neitun á sama tíma og hún, og fengu sama staðlaða póstinn um að hafa ekki uppfyllt hæfnisviðmið, en sóttu svo um aftur, hafi fengið endurráðningu. Hún hafi hins vegar ekki haft geð í sér að sækja um aftur.
„Það þarf vitundarvakningu. Við viljum bara að sögur okkar séu sagðar. Við viljum breytingu á þessari vinnustaðamenningu, að þetta komi ekki fyrir aftur. Starfsfólkið er fyrirtækið, það væri ekkert fyrirtæki ef það væri ekkert starfsfólk,“ segir Díana.
„Það er svo sárt þegar þú ert búin að gefa svona mikinn tíma, kraft og orku í fyrirtæki í svona mörg ár, að þetta séu endalokin.“