Sekt hafin yfir vafa á Sjöundá

Lesið í landið og spáð í söguna. Fremst á þessari …
Lesið í landið og spáð í söguna. Fremst á þessari mynd eru, frá vinstri talið, Benedikt Bogason forseti Hæstaréttar, Eyrún Ingadóttir, framkvæmdastjóri Lögfræðingafélags Íslands, og Gísli Már Gíslason líffræðingur. Ljósmynd/Ingimar Ingason

Ýmsir annmarkar voru við málsmeðferð í Sjöundarármálunum svonefndu árið 1802. Til dæmis myndi aldrei viðgangast í dag að nota prest til að knýja fram játningar, eins og gert var í þinghaldinu forðum. Engu að síður þykir sekt Bjarna Bjarnasonar og Steinunnar Sveinsdóttur í málinu vera hafin yfir vafa.

Þetta var niðurstaða þeirra sem tóku þátt í leiðangri Lögfræðingafélags Íslands á Rauðasand um síðustu helgi. Þar var farið um sögusvið atburðanna sem leiddu til þess að þau Bjarni og Steinunn voru dæmd fyrir morðin á Guðrúnu Egilsdóttur, konu Bjarna, og Jóni Þorgrímssyni, manni Steinunnar. Hjónin bjuggu á bænum Sjöundá og af atburðum varð örlagasaga sem lifir enn í ýmsum myndum; skáldverkum, ritum um þjóðlegan fróðleik og fleira.

Fletir í forvitnilegu máli

Um 100 manns tóku þátt í ferð Lögfræðingafélagsins á Rauðasand, sem var farin í því skyni að fræðast og velta upp nýjum flötum á forvitnilegu máli, segir Eyrún Ingadóttir, sagnfræðingur og framkvæmdastjóri félagsins.

Byrjað var að skoða vettvang atburðanna á Sjöundá með Gísla Má Gíslasyni, prófessor og öðrum höfunda Árbókar Ferðafélags Íslands 2020 um Rauðasandshrepp hinn forna. Á málþingi á Patreksfirði, sem var í framhaldinu, var rætt um sekt eða sakleysi þeirra Bjarna og Steinunnar. Þar fluttu erindi Skúli Magnússon umboðsmaður Alþingis, sem fjallaði um réttarfar þessa tíma, og Pétur Guðmann Guðmannsson réttarlæknir talaði um matsgerðir sem byggðar voru á gögnum um skoðun á líkum þeirra Jóns og Guðrúnar.

Á Patreksfirði settur lögfræðingar á rökstóla og ræddu örlagasöguna á …
Á Patreksfirði settur lögfræðingar á rökstóla og ræddu örlagasöguna á Sjöundá. Ljósmynd/Ingimar Ingason

Þá fjallaði Jón Friðrik Sigurðsson, sálfræðingur og prófessor, um hvort játningar í málinu hefðu getað verið falskar og Guðrún Sesselja Arnardóttir, lögmaður hjá ríkislögmanni, velti fyrir sér hvaða vörn þau Bjarni og Steinunn hefðu átt að fá. Í lokin ræddi Benedikt Bogason forseti Hæstaréttar um hvaða dóm Bjarni og Steinunn hefðu fengið skv. lögum og réttarfari í dag. Ingibjörg Þorsteinsdóttir, dómstjóri Héraðsdóms Reykjavíkur, var fundarstjóri.

Grautur með ólyfjan

Í byrjun réttarhalda árið 1802 fullyrti Bjarni Bjarnason að Jón Þorgrímsson hefði fallið niður kletta og út í sjó. Þegar lík Jóns fannst sjórekið um haustið var það hins vegar óbrotið. Bjarni játaði á endanum að hafa drepið Jón í sjálfsvörn en neitaði því ávallt að hafa stungið hann með broddstaf og ollið með því gati sem var á líkinu daginn sem það fannst. Pétur Guðmann Guðmannsson sýndi raunar fram á að líklegt væri að gatið eða holan hefði verið að völdum sjávardýra en lík Jóns hafði velkst um í sjó um sumarið.

„Neitun þeirra Bjarna og Steinunnar á því að hafa myrt maka sína var ekki trúað. Fyrir því eru líka í sjálfu ástæður,“ segir Eyrún. „Til dæmis viðurkenndi Steinunn að hafa gefið Guðrúnu graut blandaðan með ólyfjan sem hún varð veik af. Áverkar á ofanverðu brjósti Guðrúnar styðja einnig að hún hafi verið kæfð sem bendir til þess að Bjarni og Steinunn hafði sameiginlega borið ábyrgð á dauða hennar.“

Sérfræðingar í gömlu máli

Eyrún Ingadóttir segir ánægju hafa verið meðal þátttakenda með ferðina og að áhugavert hefði verið að hlusta á sérfræðinga dagsins í dag fjalla um þetta gamla mál. Niðurstaðan sé engu að síður sú að allar líkur séu á því að Bjarni hafi drepið Jón og þau Steinunn Guðrúnu sameiginlega.

Horft yfir vaðalinn fram til sjávar á Rauðasandi. Sjöundá er …
Horft yfir vaðalinn fram til sjávar á Rauðasandi. Sjöundá er í fjallshlíðinni yst á þessari mynd og þar standa enn hlaðnar rústir bæjarhúsa. Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert