Væri annars eingöngu með grunnskólapróf

Hrefna Sif flutti ávarp við útskriftina. Hún er hæstánægð með …
Hrefna Sif flutti ávarp við útskriftina. Hún er hæstánægð með námið.

Hrefna Sif Ármannsdóttir verslunarstjóri ætlaði sér ekki í meira nám eftir grunnskóla þegar hún fann ástríðu fyrir því að vinna. Hún hafði ekki hug á að leggja vinnu sína til hliðar en er nú, 12 árum síðar komin með stúdentspróf, diplómu og nú síðast sérstaka háskólagráðu í verslunarfræðum. Námið fékk hún allt að taka meðfram vinnu og stefnir hún nú á að mennta sig enn meira meðfram starfi sínu.

„Þegar ég byrjaði hjá Samkaupum 2010 var ég bara búin með grunnskólapróf og eitthvað smá inn í stúdentinn en eiginlega ekki neitt. Ég var bara búin að leggja þetta á hilluna, ég taldi mig ekkert vera góða í skóla en ég var mjög góð í að vinna svo ég ákvað bara að einbeita mér að því sem ég gerði vel,“ segir Hrefna Sif sem starfar sem verslunarstjóri hjá Samkaupum.

Góður námsárangur sem kom á óvart

Þegar hún hafði starfað hjá fyrirtækinu í þrjú ár fékk hún tækifæri á að taka diplómu í verslunarstjórnun samhliða vinnu.

„Ég útskrifaðist með mjög góðum námsárangri og kom mér bara ótrúlega á óvart,“ segir Hrefna Sif. „Ég fékk aukinn eldmóð til þess að sækja mér meiri menntun og kláraði stúdentinn.“

Fyrir ári síðan fékk hún, ásamt nokkrum öðrum starfsmönnum Samkaupa, tækifæri til þess að prófa nýja námsleið í samstarfi við háskólann á Bifröst og Samkaup en um er að ræða leiðtogaþjálfun fyrir verslunarstjóra. Námið er síðan hægt að nota upp í frekara háskólanám, til dæmis í viðskiptafræði eins og Hrefna sér fyrir sér að gera.

„Þetta nám tek ég ekki bara með inn í vinnustaðinn minn heldur líka inn í mitt persónulega líf. Þetta er svona nám þar sem maður lítur inn á við og skoðar hvernig stjórnandi maður vill vera,“ segir Hrefna um námið.

Ætlaði aldrei að leggja vinnuna til hliðar

Það fór fram í fjórum lotum, í hvert sinn í tvo daga í senn og fékk Hrefna Sif að fara úr vinnu þessa daga án þess að laun væru dregin af henni eða frídagar.

„Ég ætlaði aldrei að leggja vinnuna til hliðar til að mennta mig. Ef ég ætlaði að mennta mig varð ég að gera það samhliða vinnu. Ég hef svo mikla ástríðu fyrir vinnunni og mig langar ekki að hætta. Samkaup hefur byggt upp ótrúlega fjölbreyttar og mismunandi leiðir fyrir starfsfólkið að námi hvar sem það er statt,“ segir Hrefna.

Útskriftarhópurinn samanstendur af átta starfsmönnum Samkaupa.
Útskriftarhópurinn samanstendur af átta starfsmönnum Samkaupa.

Breytti lífinu

Heldurðu að ef þér hefði ekki verið gert kleift að mennta þig meðfram vinnu hefðirðu aldrei menntað þig meira?

„Ég væri þá örugglega bara með grunnskólapróf í dag. Það er klárt mál.“

Hrefna útskrifaðist úr umræddu námi fyrr í maímánuði ásamt sjö kollegum sínum. Hópurinn  er sá fyrsti sem lýkur háskólanámi sem haldið er úti af vinnuveitanda hér á landi en kennslan og þróun námsins er alfarið fjármögnuð af Samkaupum.

Hrefna segir að það hafi breytt lífi hennar að fá svo gott svigrúm til þess að mennta sig meðfram vinnu.

„Þau sýndu mér að ég get farið í nám samhliða vinnu og get staðið mig vel í því. Það var eitthvað sem ég hafði enga trú á. Ég var búin að leggja námið á hilluna, ég hélt að þetta væri bara ekki fyrir mig. Ég er ekki manneskja sem getur setið á skólabekk í átta tíma og lesið, ég þarf að vinna með hlutina svo þeir hafa algjörlega opnað þvílíkt mörg tækifæri fyrir mig á þessum árum sem ég hef unnið hjá þeim. Ég hef líka sótt þau þegar þau hafa boðið upp á þau.“

Ætlarðu að halda áfram að vinna hjá Samkaupum?

„Já, ég er ekkert að fara,“ segir Hrefna og hlær. „Auðvitað þegar maður upplifir að það sé tekið eftir manni í vinnunni og maður fær að efla sig, læra og stækka sig innan veggja vinnunnar þá vill maður auðvitað vera þar. Mér finnst við vera metin að verðleikum og ég er ekki tilbúin í að yfirgefa það til þess að verða maur á gólfi einhvers staðar annars staðar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka