Yfirlýsing Finna bæði söguleg og mikilvæg

Þórdís Kolbrún telur yfirlýsinguna endurspegla þá staðreynd að endurhugsa þurfi …
Þórdís Kolbrún telur yfirlýsinguna endurspegla þá staðreynd að endurhugsa þurfi fyrirkomulag öryggis- og varnarmála. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra fagnar yfirlýsingu forseta og forsætisráðherra Finnlands um að þau mæli með að Finnar sæki um aðild að Atlantshafsbandalaginu (NATO).

Hún segir yfirlýsinguna bæði mikilvæga og sögulega og að Ísland muni að sjálfsögðu ljá aðildarumsókn Finna algjöran stuðning, komi til hennar. Þetta kemur fram í færslu sem hún birti á Facebook-síðu sinni.

„Aðild Finnlands myndi styrkja bandalagið hernaðarlega en ekki er síður mikilvægt að Finnar eiga algjöran hugmyndafræðilegan samhljóm með Atlantshafsbandalaginu. Lýðræði, borgaraleg mannréttindi og réttarríkið eru þau gildi sem Atlantshafsbandalagið er stofnsett til þess að vernda,“ segir Þórdís.

Yfirlýsingin í dag endurspegli þá staðreynd að ríki Evrópu þurfi að endurhugsa fyrirkomulag öryggis- og varnarmála.

„Ég er sannfærð um að þær ákvarðanir sem eru til umræðu í Finnlandi og Svíþjóð muni auka öryggi í okkar heimshluta,“ segir Þórdís jafnframt, en Svíar íhuga nú að sækja um aðild að NATO. Tekin verður ákvörðun um aðild þar í landi þann 15. maí næstkomandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert