Vill að hlutverk spítalans sé endurskoðað

Runólfur Pálsson forstjóri Landspítala á ársfundi Landspítalans í Hörpu fyrr …
Runólfur Pálsson forstjóri Landspítala á ársfundi Landspítalans í Hörpu fyrr í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Tímabært er að endurskoða skilgreiningu á hlutverki Landspítala, að mati forstjórans. Hann segir stofnunina sinna fjölmörgum verkefnum sem eiga heima á öðrum þjónustustigum en til að gera henni kleift að mæta aukinni eftirspurn þarf að færa verkefni frá henni.

Ánægjulegt er að árangur viðbragða við Covid-19 hér á landi er með því besta sem þekkist á heimsvísu þegar horft er til sjúkrahúsinnlagna og andláta en þann góða árangur ber að þakka starfsfólkinu, sagði Runólfur Pálsson forstjóri Landspítala á ársfundi LSH sem fór fram fyrr í dag.

Staðan á Landspítala er engu að síður viðkvæm vegna manneklu og mikilla fjölda verkefna. Þessu verður að bregðast við. Álag á starfsfólk sem staðið hefur í eldlínunni nánast linnulaust síðustu tvö ár hefur verið gríðarlegt. 

„Að mínu mati er tímabært að endurskoða skilgreiningu á hlutverki Landspítala. Þar sem kröfur til heilbrigðiskerfisins fara vaxandi þarf að skýra hlutverk betur til að gera spítalanum kleift að leysa verkefni sín og mæta aukinni eftirspurn eftir þjónustu.

Auk þess að vera háskólasjúkrahús þjóðarinnar, hefur Landspítalinn það veigamikla hlutverk að veita íbúum höfuðborgarsvæðisins almenna þjónustu og öllum landsmönnum sérhæfða þjónustu,“ sagðir Runólfur þegar hann ávarpaði ársfundinn í dag.

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra var viðstaddur og hélt ávarp.
Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra var viðstaddur og hélt ávarp. mbl.is/Kristinn Magnússon

Mannauðsstefna spítalans endurskrifuð

Starfsmannavelta á spítalanum hefur einnig aukist á síðustu mánuðum og stendur nú í 18%, að sögn Gunnars Beinteinssonar framkvæmdastjóra mannauðsmála. Þá er ímynd og stolt starfsmanna af vinnustaðnum einnig á niðurleið. 

„Við sjáum það að við sem stofnun þurfum að tengjast okkar fólki miklu betur og fólk þarf að upplifa það að við séum að hugsa um það, ekki bara fjárhagslega heldur líkamlega og tilfinningalega,“ sagði Gunnar.

Þá sagði hann að vinna stæði nú yfir sem lýtur að því að endurskrifa mannauðsstefnu spítalans. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert