Þenslu hefur orðið vart á nýjan leik norðan Grindavíkur, við Þorbjörn og Svartsengi.
Landrisið kemur fram á GPS-mælum Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands sem staðsettir eru á Þorbirni, Skipastígshrauni og Eldvörpum.
Mælirinn á Þorbirni sýnir 20 til 30 millimetra ris síðan um mánaðamótin. Slík þensla getur orsakað aukna spennu á skaganum og ýtir undir aukna skjálftavirkni, að því sem kemur fram í tilkynningu Eldfjalla- og náttúruvárhóps Suðurlands.
Hreyfing sést einnig á GPS-stöðvum fjær Svartsengi í kjölfar þenslunnar sem er nú í gangi.
Nokkur aukning hefur verið í fjölda skjálfta síðustu daga og hafa sex skjálftar mælst yfir þrjú stig að stærð, síðastliðinn rúma sólarhringinn. Flestir þeirra hafa mælst vestast á Reykjanesskaganum.
Þá hafa um 500 skjálftar verið skráðir í sjálfvirkt mælakerfi Veðurstofunnar síðustu 48 klukkustundir.