Ekki merki um að skjálftahrinan sé að færast

Nokkrir eftirskjálftar hafa komið í kjölfar stóra skjálftans sem reið …
Nokkrir eftirskjálftar hafa komið í kjölfar stóra skjálftans sem reið yfir á fimmta tímanum í gær. Kort/Veðurstofa Íslands

Engar vísbendingar eru um að skjálftahrinan, sem hefur staðið yfir á Reykjanesskaganum síðustu daga, sé að færa sig austar þó eitthvað sé um eftirskjálfta nálægt Þrengslum, að sögn náttúruvársérfræðings hjá Veðurstofu Íslands.

Jarðskjálfti að stærð 4,7 skók suðvesturhluta landsins á fimmta tímanum í gær. Upp­tök hans voru aust­an við Lamba­fell í Þrengsl­­um. Um skjálftasvæði er að ræða og því ekki óvanalegt að skjálfti ríði yfir þó landsmenn horfi frekar til Reykjanesskagans um þessar mundir.

Þá getur verið að spennubreytingar vegna hreyfinga á Reykjanesskaganum hafi valdið skjálftanum, sem er sá stærsti sem hefur mælst síðan 1991, þegar mælingar hófust.

Ekki merki um nýja skjálftahrinu

Nokkrir skjálftar hafa komið í kjölfarið, sem eru þó ekki merki um nýja skjálftahrinu að sögn náttúruvársérfræðings. 

Engar tilkynningar um tjón hafa borist Veðurstofu Íslands en ekki er ólíklegt að skjálfti af þessari stærð hafi valdið einhverjum óþægindum. Ekki er þó öruggt um að tilkynningar berist þangað um slíkt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka