Fimm skjálftar yfir þremur að stærð hafa mælst norðvestur af Grindavík við Eldvörp frá klukkan hálf tólf í dag. Var sá stærsti 4,1 að stærð. Ekkert lát er á skjálftahrinunni sem hefur staðið yfir á Reykjanesskaga síðustu daga en frá miðnætti hafa mælst að minnsta kosti 360 skjálftar og síðasta sólarhring voru þeir 750.
Bryndís Ýr Gísladóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir marga þætti geta verið að verki en spennulosun hefur verið víðsvegar um skagann síðustu daga.
Þensla sem veldur spennubreytingum er búin að vera á Reykjanesskaganum þar sem kvika hefur mælst á 16 km dýpi við Fagradalsfjall. Þá liggur kvika nokkuð grynnra á einhverjum stöðum en upplýsingar um nákvæma staðsetningu hennar hafa ekki fengist.
Bryndís Ýr segir einnig að skjálftinn í Þrengslum, sem var 4,7 að stærð, hafi mögulega geta valdið spennubreytingum í öðrum skjálftabeltum. Skjálftarnir í dag geti því verið „blanda af mörgum þáttum.“