Brynja Huld Óskarsdóttir, öryggis- og varnarmálafræðingur, segir í samtali við mbl.is að innganga Svíþjóðar og Finnlands að Atlandshafsbandalaginu (NATO) breyti öryggislandslagi Evrópu, einkum norðurhluta Evrópu. Hún nefnir Eystrasaltið sérstaklega í þessu samhengi sem yrði með inngöngu landanna beggja að NATO undir auknu áhrifasvæði bandalagsins.
„Öryggis og varnarmálafræðilega séð hefur þetta áhrif á áherslurnar innan NATO því nú verða öll norrænu ríkin komin í Atlantshafsbandalagið,“ segir hún og bætir við að nú standi til að endurskoða grunnstefnu bandalagsins og því líklegt að aðild Finna og Svía muni breyta þeim áherslum sem NATO muni setja í tengslum við Norðurlöndin og Norðurslóðir næstu tíu árin.
Aðspurð hvort Ísland þurfi að fara í einhverjar aðgerðir í tengslum við inngöngu Svía og Finna í NATO segir hún:
„Ég myndi ekki telja að þetta snöggbreyti öryggislandslaginu á Íslandi, og Norðurlöndin hafa auðvitað starfað saman a sviði varnarmála undir öðrum en þetta auðvitað gerir það að verkum að þessi tvö lönd sem hafa ekki verið inn í NATO áður munu vera í varnarbandalagi með allri Evrópu og þegar það gerist verður öll norræna blokkin komin.“
Hún telur að þetta muni auka varnarsamstarf á milli Norðurlandanna sem hún telur að muni styrkja öryggi Íslands.
Brynja segir að það sé mikilvægt að tryggja að það verði ekki hernaðaruppbygging og vígbúnaðarkapphlaup á Norðurlöndum og Norðurslóðum og koma í veg fyrir stigmögnun átakanna í Úkraínu þannig að Rússar beini ekki vopnabúri sínu að Evrópu.
„Auðvitað má vona að bæði Finnar og Svíar, og svo önnur yfirvöld á hinum Norðurlöndunum og innan Atlandshafsbandalagsins, hlaupi ekki af stað í vígbúnaðarkapphlaup og hernaðaruppbyggingu,“ segir Brynja.
Spurð hvort innganga Finna og Svía að Atlantshafsbandalaginu sé jákvæð segir Brynja Huld að það sé alfarið í höndum ráðamanna hvort innganga þeirra reynist vera jákvæð eða neikvæð og hvernig þróun varnarmála verði á komandi árum.