„Það er ekkert notalegt við þetta en flestir eru tiltölulega rólegir,“ segir Fannar Jónasson, bæjarstjóri í Grindavík, í samtali við mbl.is. Ríkislögreglustjóri lýsti í gær yfir óvissustigi Almannavarna vegna jarðskjálftahrinu á Reykjanesskaga í samráði við lögreglustjórann á Suðurnesjum.
Að sögn Fannars fundu Grindvíkingar vel fyrir skjálftunum um helgina.
„Við vorum með fjölskipaðan fund hjá Almannavarnanefnd Grindavíkur í síðustu viku og fengum þá til liðs við okkur Björn Oddsson frá almannavarnardeild ríkislögreglustjóra. Við fórum yfir það hvers vænta mætti og stilltum saman strengi eins og við höfum gert reglulega. En svo urðu þessir jarðskjálftar um helgina. Það á í sjálfu sér ekki að koma á óvart, þar sem þetta hefur nú gerst áður en engu að síður verður fólk óþyrmilega vart við þessa skjálfta. Þeir voru svo nálægt okkur, og það sterkir, að fólk varð duglega vart við þá,“ segir Fannar.
Fundað var með viðbragðsaðilum í Grindavík í morgun. Ekki þurfti að boða til þess fundar eftir skjálftana um helgina, þar sem til hans hafði verið boðað áður.
„Við hittumst í morgun, hluti af almannavarnateyminu, en það hafði nú verið ákveðið fyrir helgi. Í gær vorum við einnig í símasambandi, eins og við erum oft. Menn eru tilbúnir og standa vaktina. Aðalmálið er að hjá Veðurstofunni og viðbragðsaðilum er mjög góð vöktun á þessu. Ef eitthvað óhefðbundið gerist, þá erum við strax látin vita. Við teljum okkur vera vel undirbúin. Björgunarsveitirnar á svæðinu og slökkviliðið hafa yfirfarið sinn búnað og keypt inn það sem þarf. Við erum reynslunni ríkari eftir síðustu tvö ár.“
Einnig var lýst yfir óvissustigi á svæðinu fyrir jól og því er ekki langt um liðið síðan síðast.
„Varðandi almenning þá er óvissustigið ágæt áminning um að festa rækilega hluti sem geta valdið skaða eða meiðslum vegna jarðskjálfta. Það er nokkuð sem hefur áður verið brýnt fyrir fólki. Óvissustigið er vægasta stig þess sem tilkynnt er. Til dæmis var lýst yfir óvissustigi fyrir jól, þegar jarðskjálftahrina gekk yfir. Þetta er svipað munstur og þá var. Ekki er því mikil breyting nú á undirbúningi viðbragðsaðila.“
Fannar segir að sterkir skjálftar minni að sjálfsögðu íbúa í Grindavík á atburðina fyrir rúmu ári þegar mikil skjálftahrina stóð yfir í aðdraganda eldgossins í Fagradalsfjalli.
„Þetta er orðið svolítið kunnuglegt og við erum ýmsu vön. Að einhverju leyti venst fólk þessu en það er að engu síður óþægilegt að fá svona hrinur. Sérstaklega vegna þess að hér voru skjálftar vikum saman á sínum tíma sem enduðu svo með eldgosi. Það er ekkert notalegt við þetta en flestir eru tiltölulega rólegir,“ segir Fannar Jónasson, bæjarstjóri í Grindavík.