Þór fetar í fótspor föður síns

Þór Sigurgeirsson.
Þór Sigurgeirsson.

Á Seltjarnarnesi er ekki þörf á meirihlutaviðræðum en Sjálfstæðisflokkurinn fékk 50% atkvæða eða hreinan meirihluta eins og svo oft í sögu sveitarfélagsins. „Það er gott í okkur hljóðið og tilhlökkun að komast með puttana í verkefnin með mikla endurnýjun á listanum,“ segir Þór Sigurgeirsson, nýr oddviti Sjálfstæðismanna. Var hann nýkominn úr sundlauginni á Seltjarnarnesi þegar Morgunblaðið sló á þráðinn.

„Eftir svona hasar þarf maður að komast í heita pottinn til að kjarna sig. Við erum þreytt en sátt og glöð með niðurstöðuna,“ sagði Þór en fólk er ekki skoðanalaust í heitu pottunum í laugum landsins. „Þú getur rétt ímyndað þér. Þarna er maður laminn til á hverjum morgni og það mun halda áfram. Maður getur varla komist í betri snertingu við samfélagið en í heita pottinum.“

Þór sat í bæjarstjórninni frá 2006 til 2010. Hann varð efstur í prófkjöri í vetur þar sem fjögur sóttust eftir oddvitasætinu hjá Sjálfstæðisflokknum. Ásgerður Halldórsdóttir ákvað að láta af störfum sem bæjarstjóri að tímabilinu loknu og Þór mun taka við af henni.

„Ég var í framboði árið 2006 þegar við unnum okkar stærsta kosningasigur frá upphafi. Eftir það fór ég út úr þessu en hef alltaf fylgst með. Eftir síðustu kosningar blundaði í mér að fara aftur í bæjarmálin og ég hafði lofað sjálfum mér því í gamla daga að fara einhvern tíma í oddvitaframboð. Nú liggur fyrir að bæjarbúar eru sammála því að hafa okkur við stjórnvölinn sextánda tímabilið í röð. Það er nánast mannsaldur,“ bendir Þór á.

Hann kemur til með að feta í fótspor föður síns, Sigurgeirs Sigurðssonar, sem var sveita- og bæjarstjóri á nesinu í áratugi. „Það er ekki allir sem ná að gera þetta að ævistarfi eins og pabbi. Nú eru akkúrat 20 ár síðan hann hætti. Þetta snertir mig pínulítið, ég neita því ekki. Það eru ákveðnar týpur sem gefa sig í þessi störf og ég vona að ég hafi erft þjónustulundina frá honum. Þetta snýst um að hlusta á sitt fólk og vinna fyrir það.“ 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert